Gagnrýni á Samherja flæðir úr öllum áttum en mbl.is birti auglýsingu fyrir áróðursmyndband

Á sama tíma og fjölmiðlafólk, listamenn og stjórnmálamenn stigu fram og fordæmdu árásir Samherja á Helga Seljan og RÚV seldi Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, Samherja auglýsingu á vef sínum fyrir nýjasta áróðursmyndband sitt.

samherjbixsamsett.jpg
Auglýsing

Um helgina birtist stór auglýsingaborði á mbl.is, sem oft er mest lesni fréttavefur landsins, sem á stóð „Ábyrgðarleysi í Efstaleiti“. Auglýsingin er frá útgerðarfyrirtækinu Samherja og ef ýtt er á hlekkinn þá er farið inn á Youtube-síðu fyrirtækisins og á nýtt myndband sem það hefur gert um Helga Seljan, blaðamann hjá fréttaskýringaþættinum Kveik, og RÚV. 

Um er að ræða þrettánda myndbandið sem Samherji hefur látið framleiða til að draga úr trúverðugleika þeirra sem stóðu að umfjöllun um athæfi fyrirtækisins í Namibíu sem sýnd var í nóvember 2019. Helsta skotmark fyrirtækisins í myndböndunum er, auk Helga, Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn sem er í lykilhlutverki í rannsóknum á hendur Samherji á Íslandi og í Namibíu.

Í nýja myndbandinu er kvartað yfir að niðurstaða siðanefndar RÚV í nýlegu kærumáli Samherja á hendur á annan tug starfsmanna fjölmiðlafyrirtækisins, þar sem Helgi var talinn hafa verið brotlegur við siðareglur vegna fjögurra ummæla sem hann hafi látið falla á samfélagsmiðlum, muni ekki hafa þær afleiðingar að Helga verði gert að hætta umfjöllun um Samherja.

Í texta sem fylgir myndbandi að í ljósi niðurstöðu siðanefndarinnar sé „óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að fréttamaðurinn hafi verið vanhæfur til að fjalla um Samherja vegna persónulegrar afstöðu gegn fyrirtækinu og stjórnendum þess.“

Í myndbandinu, sem er í kostaðri dreifingu á Youtube, er einnig kvartað yfir því að RÚV birti „ekki jákvæðar fréttir um Samherja og neitar að fjalla um mistök sín gagnvart fyrirtækinu“.

Endurupptöku hafnað

Kjarninn greindi nýverið frá því að Helgi hefði lagt fram end­ur­upp­töku­beiðni vegna úrskurðar siðanefnd­ar­innar vegna mistaka hennar. Mistökin hafi falist í því að nefndin mat fimm ummæli hans heild­stætt til að kom­ast að nið­ur­stöðu í mál­inu, þar af ein ummæli sem ekki fjöll­uðu um Sam­herja. Siðanefndin dró niðurstöðu sína vegna þeirra ummæla til baka. Þá vildi Helgi meina að einn siðanefndarmaður hefði hagsmunatengsl. Siðanefndin hafnaði því að taka málið upp

Auglýsing
Samherji var um tíma á meðal stærstu eigenda Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, en seldi hlut sinn í félaginu til Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, árið 2017. Eyþór greiddi ekkert fyrir hlutinn heldur fékk seljendalán frá Samherja. Það lán, upp á rúmlega 380 milljónir króna, er gjaldfallið og hefur ekki verið greitt til baka. Stærstu eigendur útgáfunnar eru aðilar tengdir útgerð og hún heldur úti umfangsmikilli útgáfustarfsemi um sjávarútveg bæði á vef og í prenti þar sem sjávarútvegsfyrirtæki kaupa mikið magn auglýsinga. Alls hafa eigendur Árvakurs greitt að minnsta kosti 2,5 milljarða króna vegna tapreksturs útgáfunnar frá því að þeir tóku við henni árið 2009.

Holskefla stuðnings

Margir hafa risið upp undanfarið til varnar Helga Seljan og RÚV. Í lok síðasta mánaðar birtust leiðarar í Stundinni, Kjarnanum og Fréttablaðinu þar sem niðurstaða siðanefndar RÚV, stuðningsleysi stjórnenda fyrirtækisins við starfsmenn sína og aðför Samherja gegn nafngreindum blaðamönnum var gagnrýnt. Í kjölfarið gagnrýndu bæði Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri RÚV, og Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, þá aðför sem Samherji hefur staðið í gagnvart Helga.

Í síðustu viku sendu félagar í Félagi fréttamanna og starfsmenn fréttastofu RÚV í öðrum félögum frá sér yfirlýsingu vegna nýjasta áróðursmyndbands Samherja gegn Helga Seljan, því hinu sama og auglýsingin á mbl.is vísar inn á. Þar sagði meðal annars: „Fréttamenn RÚV lýsa yfir eindregnum stuðningi við Helga í þessari ófrægingarherferð Samherja á hendur honum sem er fordæmalaus í sögu fjölmiðlunar á Íslandi. Samherji hefur undanfarin misseri valið þá leið að veitast að blaða- og fréttamönnum frekar en að svara efnislega spurningum um starfsemi fyrirtækisins og ásakanir um lögbrot. Þetta hefur fyrirtækið meðal annars gert með fjarstæðukenndum dylgjum í færslum á vef sínum og með því að borga fyrir dreifingu áróðursmyndbanda þar sem gróflega er vegið að fjölmiðlum, einkum og sér í lagi að fréttamanninum Helga Seljan[...]Ofbeldi á sér margar birtingarmyndir. Framkoma Samherja í garð þeirra fréttamanna sem unnið hafa að umfjöllun um fyrirtækið getur ekki talist annað en ofbeldi og skipulögð aðför að upplýstri umræðu og gagnrýnum en ábyrgum fréttaflutningi. Fréttamenn RÚV munu þrátt fyrir það hér eftir sem hingað til halda áfram hlutlægri og málefnalegri umfjöllun um Samherja og láta árásir fyrirtækisins ekki hafa áhrif á fréttaflutning.“

Fjölmargir starfsmenn RÚV deildu svo yfirlýsingunni í eigin nafni á samfélagsmiðlum.

Yfirlýsing frá Félagi fréttamanna og starfsmönnum fréttastofu RÚV. ,,Félagar í Félagi fréttamanna og starfsmenn...

Posted by Bogi Agustsson on Wednesday, April 21, 2021

Seðlabankastjóri varpar sprengju inn í umræðuna

Á föstudag birtist svo viðtal við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í Stundinni. Þar tjáði hann sig um annað Samherjamál, þá sem bankinn rannsakaði á hendur fyrirtækinu á sínum tíma.

Ásgeir fór sérstaklega yfir aðfarir Sam­herja gagn­vart fimm starfs­mönnum Seðla­banka Íslands, en fyr­ir­tækið kærði starfs­menn­ina fimm, þar á meðal Má Guð­munds­son fyrr­ver­andi Seðla­banka­stjóra, til lög­reglu vorið 2019 eftir að Seðla­bank­inn hafn­aði því að greiða Sam­herja bætur vegna hins svo­kall­aða Seðla­banka­máls.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Mynd: Bára Huld Beck

Ásgeir segir í við­tal­inu að það sé ótækt að einka­fyr­ir­tæki eins og alþjóð­legi útgerð­ar­ris­inn Sam­herji geti ráð­ist per­sónu­lega að rík­is- og emb­ætt­is­mönnum með þeim hætti sem hann telur að hafi átt sér stað. „Þetta starfs­fólk var kært fyrir eitt­hvað sem við vitum ekki enn þá hvað. Þetta er ákveð­inn vandi; lög­gjaf­inn hefur ekki enn veitt okkur vernd fyrir svona ásókn. Seðla­bank­inn mun að sjálf­sögðu standa straum af máls­kostn­aði vegna þess­ara mála. En ég er mjög ósáttur við þetta, að þessar kærur hafi ekki verið afgreiddar og það hafi ekki verið gengið frá þessu. Og ég er mjög ósáttur við þennan anga af þessu Sam­herj­a­máli: Að farið hafi verið svona per­sónu­lega á eftir þessu fólki.[...]Eitt er að fara gegn stofn­un­inni, það er hægt að berja á þess­ari stofnun eða mér sem fram­kvæmda­stjóra henn­ar. En ég er mjög ósáttur við að farið sé á eftir ein­staka starfs­mönnum með þessum hætti. Það má alveg berja á þess­ari stofn­un, hún er virki, en það má ekki gera þetta svona per­sónu­lega gegn fólki.“

Dregið úr fjölmiðlafrelsi

Í kjölfarið bættist Íslandsdeild Transparency International við gagnrýniskórinn. Í tilkynningu samtakanna sagði að framganga Samherja vegna frétta og eftirlits með starfsemi félagsins væri langt út fyrir ramma eðlilegra starfshátta. „Allt frá árinu 2012 þegar rannsókn Seðlabankans á starfsemi Samherja hófst vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum hefur fyrirtækið háð víðtæka herferð gegn stofnununum, fjölmiðlum og einstaka fólki. Fyrirtækið hefur fjármagnað áróðursþætti til birtinga, fjármagnað bókaskrif í áróðurstilgangi og haldið úti fordæmalausu túlkunarstríði á sögunni. Jafnvel á nefndarfundum Alþingis hafa fulltrúar fyrirtækisins sýnt af sér hegðun sem engum er sæmandi. Í Namibíumálinu hefur fyrirtækið brugðist við með samskonar hætti og raunar gefið í.  Fulltrúar fyrirtækisins hafa ógnað og njósnað um einstaklinga sem fjallað hafa um málið, kostað áróðursmyndbönd til almennings þar sem hreinum og klárum ósannindum er haldið fram og ítrekað hafa verið leiðrétt. Framganga fyrirtækisins getur ekki talist innan eðlilegra marka. Hér er um að ræða langvarandi stríðsrekstur gegn samfélaginu í krafti arðs vegna þess sérstaka aðgangs sem félagið hefur að nýtingu auðlinda almennings. Nú er mál að linni.“

Helgi Seljan. Mynd: RÚV/Kveikur

Í síðustu viku var greint frá því að Ísland hefði fallið um eitt sæti í árlegri fjölmiðlafrelsivísitölu sam­tak­anna Blaða­manna án landamæra og situr nú í 16. sæti, eftir að hafa verið í 15. sæti í fyrra. Her­ferð sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­is­ins Sam­herja gegn blaða- og frétta­mönnum sem fjallað hafa um mál­efni fyr­ir­tæk­is­ins var sér­stak­lega nefnd í umfjöllun sam­tak­anna um stöðu fjöl­miðla á Íslandi.

Þetta var fjórða árið í röð sem Ísland fellur niður list­ann, eftir að hafa verið í 10. sæti árið 2017, en hin nor­rænu ríkin raða sér efst á lista.

„Komin útá ystu brún lýðræðis og tómið blasir við“

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens bættist í hópinn um helgina þegar hann birti harðorða stöðuuppfærslu á Facebook sem vakti mikla athygli. Þar sagði hann árásir Samherja vera fordæmislausar og þegar að fyrirtækið hafi verið afhjúpað þannig að nakinn sannleikurinn blasi við þá séu viðbrögð þess að fara í herferð gegn Helga Seljan. „Við erum að tala um milljarða fyrirtæki sem er risi meðal risa á landi hér. Það sem slær mann sérstaklega er þögn þingmanna þjóðarinnar sem klárlega heyra og sjá það sem er að gerast. Er það þetta sem við almenningur viljum? Að það sé ráðist á fréttafólk sem er að vinna sína vinnu? Það eru gerðir sjónvarpsþættir til þess að taka Helga niður og settir á netið þannig að þeir blasa við öllum, börnum jafnt sem fullorðnum. Efnið er ískaldur áróður þar sem hamast er á Helga og ekkert til sparað. Mánuðum saman.“

Bubbi spurði svo hvers konar samfélag Íslendingar vildu. „Þingmenn horfa annað þegar aðför Samherja gegn Helga Seljan blasir öllum við. Það tekur Samherji sem grænt ljós yfir siðferðisþröskuldinn. Ef fólk þorir ekki að tjá sig af ótta við að það hafi afleiðingar sem geti ógnað afkomu þess þá erum við komin útá ystu brún lýðræðis og tómið blasir við.“

Árásir Samherja eru fordæmislausar. Fyrirtækið hefur verið staðið að hlutum sem vægast sagt eru þesslegir að fólk verður...

Posted by Bubbi Morthens on Saturday, April 24, 2021

Árásir sem taka hlutina á nýtt og áður óþekkt stig

Stjórnmálamenn hafa sumir hverjir brugðist við um helgina, eftir að viðtalið við Ásgeir var birt og gagnrýni Bubba var sett fram. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, kom inn á herferð Samherja gegn RÚV og Helga Seljan í Silfrinu á RÚV í gær. Þar sagði hún að henni þætti ógeðfellt að verið væri að nýta hagnaðinn af sameiginlegri auðlind landsmanna væri varið í „árásir á fjölmiðlafólk og einn okkar sterkasta rannsóknarblaðamann og til að grafa undan þessari stofnun hér líka, sem að er RÚV. Þetta er mjög alvarlegt.“

Í gærkvöldi birtist stöðuuppfærsla á Facebook frá Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar. Logi er frá Akureyri, sama sveitarfélagi og Samherji. Í stöðuuppfærslunni sagði Logi: „Þegar ég var að alast upp á Akureyri fyrir nokkrum áratugum áttaði maður sig vissulega á að einstaka fjölskyldur voru efnaðri en restin af bæjarbúum. Þetta birtist aðallega í einbýlishúsi, Volvo og lítilli auka bifreið. Jú svo fóru þessar fjölskyldur stundum í utanlandsferðir sem var frekar sjaldgæft þá. Að öðru leyti tók maður lítið eftir þessu. Börn þessa efnafólks gengu með manni í skóla og strákarnir spiluðu með manni fótbolta. Hugsanlega hafa þau átt Millet úlpur eða flottari takkaskó en ég tók þá að minnsta kosti ekki eftir því.“

Auglýsing
Síðan þá hafi hins vegar gríðarlegur auður safnast á enn færri hendur og örfáir einstaklingar orðið ríkari en hægt sé að átta sig á. „Ein ástæðan er aðgangur þeirra að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Hluti þessa auðs hefur síðan leitað í aðrar greinar og sömu aðilar hreiðrað um sig í orkugeiranum, trygginga- og bankastarfsemi, matvörukeðjum, flutningastarfsemi, húsnæðismarkaði og jafnvel fjölmiðlum. Þetta eitt og sér er hættuleg þróun og endar að lokum í því að lýðræðið lætur í minnipokann fyrir auðræðinu. Og við þurfum virkilega að taka það alvarlega þegar seðlabankastjóri landsins segir: „Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum.”“Logi sagði suma þessa „sturtríku manna“ haga sér eins og um þá eigi að gilda önnur lög og aðrir mannasiðir. „Viðbrögð stjórnenda Samherja í kjölfar Seðlabankamálsins og Namibíuskjalanna gefa t.d. tilefni til að ætla að þeir telji sig lúta öðrum lögmálum og annað fólk[...]Árásir Samherja á einstaka embættis- og blaðamenn taka svo hlutina alveg á nýtt og áður óþekkt stig og grafa undan því að fólk sem sinnir eftirliti og aðhaldi geti sinnt störfum sínum óhrætt.“

Þegar ég var að alast upp á Akureyri fyrir nokkrum áratugum áttaði maður sig vissulega á að einstaka fjölskyldur...

Posted by Logi Einarsson on Sunday, April 25, 2021

Kolbeini verður illt að fylgjast með aðförum Samherja

Í morgun steig svo fram þingmaður úr stjórnarliðinu, fyrrverandi blaðamaðurinn Kolbeinn Óttarsson Proppé úr Vinstri grænum, og tók undir gagnrýnina. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hann að forsvarsmenn Samherja væru nú að nýta auð sinn í „endalausar árásir gegn fréttamanni sem þeim finnst hafa verið sér óþægur ljár í þúfu. Og í leiðinni að allri fréttastofu RÚV. Auð sem þeir hafa öðlast við að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Og sækja að einstaka starfsmönnum Seðlabankans. Þetta er ljótt. Smásálarlegt. Þráhyggjan er slík að manni verður einfaldlega illt að fylgjast með þessu.“

Þingmaðurinn segir að hann velti því oft fyrir sér hvort forsvarsmenn Samherja séu algjörlega úr takti við samfélagið. „Mér fannst hegðun sumra þeirra á nefndarsviði Alþingis, þar sem þeir veittust að þáverandi seðlabankastjóra, benda til þess. Gaf ákveðna tilætlunarsemi til kynna, elítuhugsun um að vera yfir þetta allt hafinn og reglur samfélagsins giltu ekki um þá. Þegar ég steig á milli voru það ósjálfráð viðbrögð við því að ungur og kraftalegur maður veittist að eldri manni. En þetta var svo miklu meira en það; það hvernig þú bregst við fólki sem þér finnst vera þér mótdrægt segir nefnilega allt um þig sem manneskju. Og viðbrögðin þarna voru að það ætti bara að öskra þetta óþægilega í burtu.“

Enn séu forsvarsmenn Samherja við sama heygarðshornið og hiki ekki við að nýta forréttindastöðu sína til reyna að öskra það óþægilega í burtu, að mati Kolbeins. Hann hvetur þá frekar til að líta í eigin barm og þroskast af þessari lífsreynslu. „Ég vona að Helgi Seljan, fólkið á fréttastofu RÚV og þeir starfsmenn Seðlabankans sem undir eru hafi það eins gott og hægt er undir þessum ömurlegu kringumstæðum. Hugur minn er alltént hjá þeim.“

Árásir auðmanna Forsvarsmenn Samherja nýta nú auð sinn í endalausar árásir gegn fréttamanni sem þeim finnst hafa verið...

Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Monday, April 26, 2021

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svona eru líkur frambjóðenda á að komast á þing
Sitjandi þingmenn, og einn flokksformaður, eru í mikilli hættu á að missa þingsæti sitt í komandi kosningum. Mikil endurnýjun er í kortunum en alls 27 frambjóðendur sem sitja ekki á þingi eru líklegir til að ná þingsæti.
Kjarninn 16. september 2021
Tómas A. Tómasson og Kolbrún Baldursdóttir
Aðalsmenn og almenningur á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Þorkell Sigurlaugsson og Sigmar Vilhjálmsson sitja báðir í undirbúningsnefnd hins nýja félags.
Unnið að stofnun nýrra hagsmunasamtaka lítilla og meðalstórra fyrirtækja
Atvinnufjélaginu er ætlað að vera málsvari fyrir hagsmuni einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Þörfin á slíkum samtökum atvinnurekenda er sögð mikil af hálfu stofnenda.
Kjarninn 16. september 2021
Tryggvi Rúnar Brynjarsson
Í Dal hinna föllnu
Kjarninn 16. september 2021
Sif Sigmarsdóttir
Hvernig viljum við lifa?
Kjarninn 16. september 2021
Arnhildur Hálfdánardóttir fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Hún er þar með síðasti handhafi þeirra verðlauna.
Hætta að veita fjölmiðlaverðlaun á degi íslenskrar náttúru
Algjör sprenging hefur orðið í umfjöllun fjölmiðla um loftslags- og umhverfismál og því telur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki lengur þörf á að verðlauna miðla sérstaklega fyrir slíkan fréttaflutning.
Kjarninn 16. september 2021
Sif Konráðsdóttir
Áratugur Árósasamnings
Kjarninn 16. september 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Framlög til barnabótakerfisins aukin og fleiri fá þær, en raunvirði bóta hefur lítið hækkað
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur um að ríkisstjórn hennar hafi aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði fyrir fjórum árum síðan.
Kjarninn 15. september 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar