Þeir Íslendingar sem urðu 15 ára á síðasta ári mega búast við því að starfsævi þeirra verði 44,6 ár. Hvergi í Evrópu er starfsævin jafn löng en hún er næst lengst í Hollandi, 42,5 ár að meðaltali. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Á vef Eurostat segir að mælikvarðinn sem er notaður gefi til kynna hversu mörg ár 15 ára ungmenni geti vænst að verja á vinnumarkaði. Að meðaltali er starfsævi karla lengri en starfsævi kvenna, hér á landi geta 15 ára piltar vænst þess að vera 46,4 ár á vinnumarkaði en 15 ára stúlkur geta gert ráð fyrir því að eiga 42,6 ára langa starfsævi.
Meðallengd starfsævinnar innan Evrópusambandsins er tæpum níu árum styttri en hér á landi eða 36 ár. Hjá körlum er meðaltalið 38,2 ár en 33,7 ár hjá konum.
Starfsævin lengst nánast stöðugt frá upphafi aldarinnar
Í Evrópu er starfsævin styst í Rúmeníu, 31,3 ár. Þar á eftir kemur Ítalía en meðalstarfsævi þar í landi er 31,6 ár. Ítalskar konur geta gert ráð fyrir að vinna skemur en aðrir íbúar álfunnar, samkvæmt Eurostat er meðalstarfsævi ítalskra kvenna 26,9 ár. Karlar þar í landi verja aftur á móti 36 árum á vinnumarkaði að meðaltali.
Lengd starfsævinnar hefur vaxið nánast stöðugt frá því í upphafi aldarinnar. Árið 2001 var meðaltalið innan ESB 32 ár en það var komið upp í 35,9 ár árið 2019. Meðaltalið lækkaði í fyrsta sinn árið 2020 vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins og fór þá niður í 35,6 ár. Líkt og áður segir var meðaltalið fyrir síðasta ár komið í 36 ár og það hefur því náð að hoppa upp fyrir meðaltalið eins og það var fyrir kórónuveirufaraldur.
Konur vinna lengur en karlar í Litáen
Líkt og áður segir er starfsævi kvenna skemmri en starfsævi karla í Evrópu. Þetta kynjabil hefur engu að síður minnkað á síðustu árum Munurinn árið 2021 mældist 4,5 ár en bilið var sjö ár árið 2001. Kynjabilið er mest á Ítalíu en starfsævi ítalskra karla er rúmum níu árum lengri en ítalskra kvenna.
Kynjabilið er minnst í Eistlandi, þar sem það mælist 0,1 ár. Í einu landi Evrópu geta konur vænst þess að eiga lengri starfsævi en karlar, það er í Litáen þar sem konur verja að meðaltali 1,3 árum lengur á vinnumarkaði en karlar.