Aztiq, sjóður sem stýrt er af Róberti Wessman, og Innobic Asia, dótturfélag PTT Public Company Limited, stærstu skráðu fyrirtækjasamstæðu Taílands, hafa keypt leiðandi hlut í lyfjafyrirtækinu Lotus Pharmaceutical og allt hlutafé í Adalvo á alls 475 milljónir dala, eða rúmlega 62 milljarða króna af eigendum Alvogen-samstæðunnar, en um er að ræða starfsemi hennar í Asíu. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans skiptast kaupin þannig að Innobic kaupir um tvo þriðju þess sem selt var og Aztiq um þriðjung.
Seljendur eru CVC Capital Partners, Temasek Holdings í Singapore ásamt Aztiq, sem er þar af leiðandi bæði kaupandi og seljandi.
Viðskiptafléttan er nokkuð flókin. Hún fer þannig fram að félag sem kallast Aztiq III HoldCo, í eigu Aztiq og Innobic, kaupir allt hlutafé í Alvogen Emerging Markets Holding Limited af Alvogen Lux Holding Sarl, en fyrrnefndar félagið er fyrir vikið á leiðandi hlut í lyfjafyrirtækjunum Lotus Pharmaceutical og á Adalvo að fullu.
Kaupin hafa ekki áhrif á Alvotech, sem ætlar sér að setja á markað samheitalyf í nánustu framtíð og hefur byggt lyfjaverksmiðju í Vatnsmýrinni, né starfsemi Alvogen í Bandaríkjunum.
Stærsti hluthafinn í Alvotech er Aztiq. Í fyrirtækjaskrá er Róbert skráður óbeinn endanlegur eigandi að 38,6 prósent hlut í Alvotech, sem gefur til kynna að það sé eignarhluturinn sem hann stýrir. Næst stærsti hluthafinn er svo Alvogen, sem Aztiq Pharma á beint og óbeint um 40 prósent hlut í. CVC Capital og Temasek eru hinir hluthafarnir.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Tomas Ekman, stjórnarmanni Alvogen Lux, að komið sé að þeim tímamótum að selja hlut og láta Aztiq og Innobic halda áfram þeirri vegferð sem Lotus er á. Bæði Adalvo og Lotus munu halda áfram nánu samstarfi við Alvogen fyrirtækjasamstæðurnar. Salan í dag á Adalvo og Lotus eru í samræmi við þá langtíma stefnu sem var mótuð á sínum tíma og mun Alvogen ráðstafa söluandvirðinu með það í huga að hákmarka arðsemi hlutahafa Alvogen.“
Róbert Wessman þakkar á sama stað fráfarandi hluthöfum fyrir stuðninginn og samstarfið undanfarin ár.