Tilkynnt hefur verið um uppsagnir starfsmanna á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Helga Guðrún Erlendsdóttir, hjúkrunarforstjóri Heilsuvernd hjúkrunarheimila, staðfestir í samtali við Kjarnann að uppsagnir hafi átt sér stað á Hlíð en Heilsuvernd hjúkrunarheimili sjá um rekstur Hlíðar. Guðrún gat ekki sagt með vissu hver fjöldi uppsagna hefði verið.
Logi Már Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á málinu á Facebook síðu sinni í kvöld þar sem hann sagði að samkvæmt sínum heimildum hefði verið tilkynnt um uppsagnir 26 starfsmanna á hjúkrunarheimilunum á Akureyri. Lykilstarfsmenn hafi verið í hópi þeirra sem sagt var upp.
„Í mörg ár hefur ríkisvaldið vanfjármagnað málaflokkinn með þeim afleiðingum að Akureyrarbær neyddist til að segja upp samningi um rekstur heimilinna, enda erfitt að réttlæta að greiða tap ár eftir ár með peningum sem áttu að fara í önnur mikilvæg og jafnvel lögbundin verkefni. Í stað þess að ríkið tæki við rekstrinum einsog tíðkast víða um land, ákvað heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin að bjóða hann út og einkahlutafélag tók við honum fyrir nokkrum vikum. Og nú er sem sagt hagræðingin hafin,“ sagði Logi í færslu sinni.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, birti uppsagnarbréf eins starfsmanns sem unnið hafði á hjúkrunarheimilinu Hlíð í 20 ár. Í færslu sinni á Facebook segir Drífa að nú ætli Heilsuvernd hjúkrunarheimili að ná fram hagræðingu með uppsögnum. „Svei þeim og svei arðvæðingunni! Nú á að losa sig við “dýra” starfsfólkið og ná “hagræðingu”. Starfsfólkið er fyrst til að taka skellinn, þetta líðst með vitund og vilja ríkis og sveitarfélagsins!“
Heilsuvernd Hjúkrunarheimili ehf. eru tekin við rekstrinum á Hlíð á Akureyri og tvínóna ekki við hlutina. 64 ára gömul...
Posted by Drífa Snædal on Friday, June 18, 2021
Heilsuvernd tók við rekstri Öldrunaraheimila Akureyrar í apríl á þessu ári. Á Akureyri rekur það nú dvalar- og hjúkrunarheimilið Hlíð og hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð í Glerárhverfi.