Starfsmönnum stóru viðskiptabankanna þriggja hefur haldið áfram að fækka nokkuð það sem af er ári, en samkvæmt árshlutareikningum þeirra fyrir fyrri helming ársins sem komið hafa út núna í lok mánaðar hafa allir bankarnir fækkað starfsmönnum á umliðnum sex mánuðum.
Arion banki hefur fækkað starfsmönnum um 38, en í hálfsársuppgjöri Arion banka kom fram að starfsmenn í fullu starfi hjá bankanum hefðu verið 610 þann 30. júní en 648 um áramót. Yfir hundrað manns til viðbótar voru í starfi hjá öðrum fyrirtækjum innan samstæðu bankans í lok júní.
Landsbankinn segir frá því í uppgjöri sínu að ársverk hjá samstæðu bankans hafi verið 844 talsins þann 30. júní, en þau voru 878 í lok síðasta árs. Stöðugildum fækkaði því um 34 á tímabilinu.
Heildarfjöldi stöðugilda hjá Íslandsbanka dróst einnig saman, en þar voru 733 starfsmenn þann 30. júní en 745 um áramót. Þeim hefur því fækkað um 12.
Af þessum tölum má ráða að starfsmönnum bankanna þriggja hafi fækkað um rúmlega 80 á fyrri helmingi ársins, en þó starfa enn samanlagt 2.187 manns hjá bönkunum þremur. Það nemur rúmlega 1 prósenti af öllum þeim sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði.
Rekstur bankanna gekk vel á fyrri helmingi árs, en samanlagður hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka nam um 37 milljörðum króna.