Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, ætlar ekki að tjá sig um niðurstöðu umboðsmanns Alþingis á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, við hann á meðan að á rannsókn lekamálsins stóð. Þetta sagði Stefán við Kjarnann þegar leitað var viðbragða hans við niðustöðunni. Samkvæmt frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis hafði Hanna Birna ítrekuð og mikil afskipti af rannsókn málsins.
Stefán tilkynnti að hann myndi hætta sem lögreglustjóri eftir margra ára starf og gerast sviðstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar undir lok júlí 2014. Hann hefur ekki viljað tjá sig opinberlega um þau samskipti sem Hanna Birna átti við hann á meðan að á rannsókn málsins stóð en hann svaraði hins vegar spurningum umboðsmanns Alþingis um þau. Í þeim svörum kom fram að á meðal þess sem Hanna Birna sagði við Stefán var að „þegar þessu máli yrði lokið þá væri það alveg ljóst í hennar huga að það þyrfti að rannsaka rannsókn lögreglu og ríkissaksóknara.“
Hægt er að lesa um frekari afskipti Hönnu Birnu af Stefáni hér.
Í yfirlýsingu sem Hanna Birna sendi frá sér þegar jún sagði af sér ráðherraembætti þann 21. nóvember 2014 sagði hún hafi frá upphafi Lekamálsins reynt að vanda til verka og alltaf brugðist við með þeim hætti sem hún hafi talið satt og rétt. Hún hafi ítrekað tjáð sig um að hún hafi ekki blandað sér með óeðlilegum hætti í rannsókn lekamálsins og það hafi Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri, ríkissaksóknari, rannsakendur og loks héraðsdómur staðfest með niðurstöðum sínum.
Í niðurstöðu umboðsmanns sem birt var í dag kemur fram að afstaða Hönnu Birnu til samskipta hennar við Stefán hafi breyst. Hún hefur nú beðist afsökunar á þeim samskiptum og framgöngu sinni í þeim.