Í dag, fimmtudag, gætu stjórnvöld í Kaliforníuríki tekið sögulega ákvörðun: Að banna sölu á nýjum bílum sem ganga fyrir bensíni eða dísilolíu. Fari kosning um málið á þann veg mun algjört bann á sölu slíkra bíla taka gildi árið 2035. Gavin Newsom ríkisstjóri hefur kallað aðgerðina „upphafið að endalokum“ brunahreyfilsins. „Þetta er eitt stærsta skrefið sem tekið verður á þeirri vegferð að útrýma púströrinu eins og við þekkjum það.“
Kalifornía er sannkallað himnaríki einkabílsins. Hvergi er að finna fleiri bíla miðað við höfðatölu í gjörvöllum Bandaríkjunum. En líkt og fram kemur í ítarlegri fréttaskýringu New York Times, sýnir sagan að önnur ríki fylgja oft fordæmi Kaliforníu og líklegt þykir að það gerist einnig í þessu máli.
„Þetta er risastórt skref,“ hefur New York Times eftir Margo Oge, sérfræðingi í rafbílum sem leiddi loftslagsverkefni Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna í forsetatíð Baracks Obama, Bills Clinton og George W. Bush.
Tekið í skrefum
Loftgæðaráð Kaliforníu (California Air Resources Board) leggur tillöguna fram og verði hún samþykkt verða engir bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti seldir í ríkinu frá og með árinu 2035. Í tillögunni eru einnig sett markmið um að draga úr fjölda slíkra farartækja þar til algjört bann tæki við. Stefnt er að því að árið 2026, eftir aðeins fjögur ár, muni aðrir eldsneytisgjafar en þeir sem losa koldíoxíð knýja 35 prósent allra nýrra farartækja ætluð fyrir farþegaflutninga. Takmarkið er að hlutfallið verði komið upp í 68 prósent árið 2030.
Samgöngur eru helsti losunarvaldur gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum. En er of bratt að banna brunabíla fyrir árið 2035?
John Bozzella, forseti bandaríska bílgreinasambandsins, segir að vissulega vilji bílaframleiðendur taka þátt í því að koma fleiri rafmagnsbílum á göturnar en að ná markmiði Kaliforníuríkis yrði „gríðarlega krefjandi“. Margir þættir spili þar inn í, s.s. aðgengi að hleðslustöðvum og ekki síður framleiðsla bílanna sjálfra. Hann bendir einnig á að afla þurfi nauðsynlegra og fágætra jarðefna og tryggja þurfi nægt framboð á þeim. Framleiðslukeðjur hafi allar laskast í COVID-faraldrinum og séu enn ekki komnar á rétt ról.
Kaliforníuríki hefur lengi viljað setja sínar eigin reglur um mengandi bíla en ljónið Donald Trump stóð í veginum áður. Enn leggjast repúblikanar gegn því að ríki geti sett slíkar reglur óháð alríkinu.
Margir þeirra sem gagnrýna reglugerðir um fyrir hvers konar eldsneyti bílar verða að ganga hafa bent á að verð á rafbílum er enn mun hærra en verð á sambærilegum brunabílum í Bandaríkjunum. Þá hafa sérfræðingar í orkugeiranum bent á að stóraukin rafbílaeign á skömmum tíma muni valda miklu álagi á raforkukerfið, kerfi sem er veikbyggt á mörgum stöðum í landinu. „Hvaðan á aukið rafmagn að koma?“ spyr Ann Bluntzer, sem fer fyrir orkustofnun innan háskóla í Texas. „Úr jarðefnaeldsneyti? Vindi? Sólarorku? Vatnsorku?“
Biden boðar breytingar
Joe Biden Bandaríkjaforseti staðfesti í síðustu viku ný loftslagslög. Samkvæmt þeim á að veita 370 milljörðum dala í ívilnanir fyrir verkefni sem miða að aukinni notkun „grænnar orku“.
Það eitt og sér mun ekki bjarga heiminum. Og ekki verða til þess að markmið um kolefnishlutleysi náist. Þess vegna hafa embættismenn Hvíta hússins heitið því að til frekari aðgerða verði gripið og segja má að mögulegt bann við nýjum brunabílum í Kaliforníu sé meðal slíkra aðgerða. Biden hefur ólíkt forvera sínum Trump hvatt ríki landsins til að taka sjálfstæðar og metnaðarfullar ákvarðanir í loftslagsmálum.