Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fyrr í vikunni fram drög að þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks, þar sem finna má 17 aðgerðir sem ætlað er að stuðla að réttarbótum og bættri stöðu hinsegin fólks. Drögin eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.
Aðgerðirnar eru af ýmsum toga og áætlað er að ráðast í þær víða, hjá ráðuneytum og stofnunum hins opinbera. Þær rúmast flestar innan fjárheimilda þeirra ráðuneyta eða stofnana sem ætlað er að hrinda þeim í framkvæmd, en þó eru á því tvær undantekningar.
Ein aðgerðanna er sú að vinna að því að koma Íslandi í eitt af efstu sætunum á regnbogakorti ILGA Europe, sem eru regnhlífasamtök hinsegin félagasamtaka í Evrópu. Þau gera árlega úttekt á lagalegri stöðu hinsegin fólks í álfunni og birta á svokölluðu Regnbogakorti. „Ísland er nú í 14. sæti á listanum og hefur þokast upp listann undanfarin ár. Markmiðið er að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks,“ segir í tillögunni frá forsætsisráðherra.
Efst á blaði í þingsályktunardrögunum eru framlög til svokallaðs framkvæmdasjóðs hinsegin málefna, sem eiga að verða 10 milljónir á ári eða 40 milljónir alls á árunum 2022-2025. Þetta er nýr sjóður sem á að úthluta fé til ákveðinna verkefna, nánar tiltekið samstarfsverkefna ráðuneyta og ríkisstofnana eða háskólasamfélagsins „þar sem tilgangurinn er að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu á sviði málefna hinsegin fólks eða innleiða tillögur á grunni verkefna í framkvæmdaáætlun.“ Forsætisráðuneytið mun úthluta úr þessum sjóði eftir umsóknum frá ráðuneytum.
Einnig á að verja sérstaklega fé í það að kortleggja stöðu og réttindi hinsegin fólks á Íslandi í samstarfi við Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum (RIKK). Meðal annars á að horfa til löggjafar og stefnumótunar stjórnvalda, stöðu hinsvegin barna og ungmenna í skólum, stöðu á vinnumarkaði, stöðu eldri borgara innan hinsegin samfélagsins og fleiri þátta. Áætlaður kostnaður við þetta verkefni, sem vinnast skal á árunum 2022-2024 eru 5 milljónir króna.
Hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna verði refsiverð
Á lista yfir aðgerðir má finna nokkrar lagabreytingar sem eiga að bæta réttarstöðu hinsegin fólks. Þannig stendur til að breyta hegningarlögum þannig að ákvæði um hatursorðræðu taki líka hatursorðræðu á grundvelli kyneinkenna. Lagaákvæðið tekur nú einungis til hatursorðræðu á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar og kynvitundar.
Samhliða á að gera það refsivert að neita einstaklingi um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli kyneinkenna og sömuleiðis breyta ákvæðum hegningarlaga þannig að það leiði til refsiþyngingar ef brot teljist hatursglæpur.
Skoðanakönnun um stöðu hinsegin fólks í sjávarútvegi og landbúnaði
Sem áður segir kennir ýmissa grasa í aðgerðaáætluninni. Þannig er lagt upp með að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ráðist í gerð könnunar á viðhorfi og stöðu hinsegin fólks innan sjávarútvegs og landbúnaðar, en þó ekki fyrr en á árunum 2024-2025.
„Markmið aðgerðarinnar er að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks í sjávarútvegi og landbúnaði og mikilvægi fjölbreytileika í öllum atvinnugreinum,“ samkvæmt því sem segir í drögunum frá forsætisráðherra.
Margskonar fræðsla og rannsóknir
Eftirtaldir hópar munu fá fræðslu um málefni hinsegin fólks á kjörtímabilinu, samkvæmt drögum að aðgerðaáætluninni; kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga, stjórnendur hjá ríkinu og lögreglan. Í greinargerð forsætisráðherra sem fylgir aðgerðaáætluninni segir að það sé mikilvægt að þekking sé til staðar hjá lögreglu um málefni hinsegin fólks, „svo tekið sé á verkefnum sem inn á borð hennar koma án fordóma og mismununar.“
Auk áðurnefndrar skoðanakönnunar í sjávarútvegi og landbúnaði er lagt upp með að ráðist verði í úttekt á líðan hinsegin barna í skólakerfinu og sömuleiðis rannsókn á heimilisofbeldi í hinsegin samböndum og fjölskyldum. „Lítil þekking er á heimilisofbeldi í hinsegin samböndum og fjölskyldum á Íslandi og er mikilvægt að bæta þekkingu í málaflokknum til að takast á við vandann og vinna að úrbótum,“ segir um síðarnefnda málið í drögunum að aðgerðaáætluninni.
Íslandi beiti sér á alþjóðavettvangi
Ein aðgerðanna sem lögð er til af forsætisráðherra er svo sú að utanríkisráðuneytið nýti öll tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á stöðu hinsegin fólks í löndum sem þau eiga í samskiptum við og beiti sér sérstaklega fyrir bættri stöðu hinsegin fólks á alþjóðavettvangi.
„Ísland stendur framarlega þegar kemur að réttindum og félagslegri stöðu hinsegin fólks og stjórnvöld geta nýtt þá stöðu og reynslu til að hafa áhrif á stöðu og réttindi hinsegin fólks annars staðar í heiminum,“ segir um þetta efni, í drögunum frá forsætisráðherra.