Stefnt er að því að Logi Einarsson verði næsti þingflokksformaður Samfylkingarinnar, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í hádeginu sagði RÚV frá því að Kristrún Frostadóttir, nýr formaður Samfylkingar, ætlaði að skipta Helgu Völu Helgadóttur út sem þingflokksformanni. Helga Vala vísaði fyrirspurn RÚV um þetta efni áfram til Kristrúnar, sem hvorki játaði því né neitaði að til stæði að skipta um þingflokksformann.
Í samtali við RÚV sagði Kristrún að þingflokksfundur hefði ekki enn verið haldinn frá því að Samfylkingin lauk sínum landsfundi og þingflokksfundur, þar sem ákvarðanir af þessu tagi eru teknar, hefði því ekki enn farið fram.
Þar sem engin að engin ákvörðun hefði verið tekin af þingflokknum, hefði hún lítið að segja um málið.
„Þetta er bara málefni sem þarf að eiga sér stað og ræða inni í þingflokknum. Það er kosið um það og farið með þetta inn í umræðu í þingflokknum. Þannig það er bara ekki tímabært að vera að tjá sig um það,“ sagði Kristrún.
Þaulsetnasti formaður Samfylkingarinnar frá stofnun
Helga Vala, sem hefur setið á þingi sem alþingismaður Reykvíkinga frá árinu 2017, hefur verið formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá því í fyrra.
Logi hefur verið þingmaður Norðausturkjördæmis frá 2016 og formaður Samfylkingarinnar allt frá því að hann settist á þing og þar til um síðustu helgi, sem gerir hann að þaulsetnasta formanni flokksins frá því að Samfylkingin var stofnuð um aldamót.
Með því að segja af sér embætti formanns sagðist Logi, sem kunngjörði þá ákvörðun sína í samtali við Fréttablaðið í júní, vera að axla ábyrgð á slælegu gengi flokksins í síðustu þingkosningum, en flokkurinn tapaði fylgi og fékk einungis 9,9 prósent atkvæða á landsvísu og sex þingmenn kjörna.
Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í mars flutti Logi ræðu þar sem hann gerði upp vonbrigðin.
„Ef við horfum gagnrýnum augum inn á við er vafalaust hægt að leita skýringa víða; aðferðir við val á lista, mótun skilaboða, samskiptaháttum, mannauð og forystu flokksins. Og þar ber ég að sjálfsögðu ábyrgð,“ sagði Logi.
Hann sagði við Fréttablaðið í sumar að hann hefði viljað hætta strax eftir síðustu kosningar, en að hann hefði verið sannfærður um að halda áfram, sem hann gerði, fram að landsþingi sem fram fór um liðna helgi.
Þar var forysta Samfylkingarinnar endurnýjuð. Kristrún var kjörin nýr formaður, Guðmundur Árni Stefánsson oddviti flokksins í Hafnarfirði var sjálfkjörinn varaformaður og Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar var kjörin ritari.