Síðdegis á föstudag, þann 24. júní, var tilkynnt um að ríkisstjórn Íslands hefði skipað nýjan stýrihóp fjögurra ráðuneyta; forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, undir stjórn félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Hlutverk hópsins á að vera að hafa yfirsýn yfir vinnu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er snýr að endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Ekki var send tilkynning á fjölmiðla vegna þessarar skipunar líkt og venja er þegar skipaðir eru hópar til að fara yfir stór samfélagsleg verkefni. Auk þess hefur það tíðkast lengi hjá stjórnvöldum að tilkynna um ákvarðanir sem gætu verið óvinsælar í ýmsum hópum á þessum tíma, seint á föstudegi þegar samfélagið er að hefja helgarfrí.
Umræddur stýrihópur á að starfa lengi, í tæp tvö ár. Hann á að halda utan um yfirlit yfir aðgerðir og framgang tímasettrar verkefnaáætlunar ráðuneytanna og skila greinargerð um störf hópsins í lok skipunartíma síns, sem er 1. júní 2024.
„Mér er óglatt svo ekki sė meira sagt“
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Steingrímur er skipaður í hóp á vegum ríkisstjórnarinnar. Hann leiddi einnig svokallaðan spretthóp sem flokkssystir hans, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði fyrr í þessum mánuði. Hópurinn skilaði Svandísi tillögum og valkostagreiningu vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi sökum þess að verð á aðföngum til bænda hefur hækkað gríðarlega eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, deildi frétt um skipan Steingríms fyrr í dag og skrifaði í uppfærslu á Facebook: „Er þetta eitthvert grín ? Það er ekki eins og þessi einstaklingur hafi ekki haft þúsundföld tækifæri og völd til að leiðrétta svívirðilega meðferð stjórnvalda á öryrkjum og framfærslu þeirra. Mér er óglatt svo ekki sė meira sagt.“
Auk Steingríms sitja í hópnum Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem sat meðal annars í nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins sem skilaði af sér skýrslu árið 2016 eftir þriggja ára vinnu, er einnig í hópnum ásamt Eygló Harðardóttur, fyrrverandi þingmanni Framsóknarflokksins og félagsmálaráðherra um nokkurra ára skeið þar sem hún fór meðal annars með málefni almannatryggingakerfisins. Fjórði meðlimurinn er svo Henný Hinz, aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar á sviði vinnumarkaðs-, efnahags- og loftslagsmála.
Rík áhersla á val
Fyrir stýrihópinn mun starfa sérfræðingateymi sem vinnur að undirbúningi, útfærslum og innleiðingu breytinga á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga fyrir einstaklinga með mismikla starfsgetu eða heilsubrest sem hefur áhrif á starfsgetu viðkomandi með áherslu á starfsendurhæfingu og aukna möguleika til þátttöku á vinnumarkaði.
Klara Briem, verkefnisstjóri í félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mun leiða vinnu sérfræðingateymisins og vera tengiliður við stýrihóp ráðuneytanna. Áhersla á að vera á víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila, stofnanir, önnur ráðuneyti og aðra hlutaðeigandi eftir því sem við á.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsorku. „Sérstaklega verður horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Lögð verður rík áhersla á val einstaklinga til að taka þátt í nýju kerfi. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og sett á fót ný Mannréttindastofnun.“