Grikkir þurfa að koma með „alvöru og trúverðugar“ tillögur á neyðarfund hjá leiðtogum Evrópusambandsríkjanna í dag ef þeir vilja halda áfram í myntsamstarfinu. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og forseti Frakklands, Francois Hollande, hafa sent frá sér fréttatilkynningar þar sem þetta kemur fram.
Alexis Tsipras forsætisráðherra og Euclid Tsakalotos nýr fjármálaráðherra Grikklands eru nú komnir til Brussel, en fundur fjármálaráðherra evruríkjanna, evruhópsins svokallaða, hefst klukkan 11 á íslenskum tíma. Sá fundur er undirbúningur fyrir fund Evrópusambandsleiðtoganna, sem hefst klukkan fjögur að íslenskum tíma.
Vonir manna um að stórra frétta verði að vænta eftir fundina í dag hafa dvínað. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í Evrópuþinginu í morgun að lausn á málinu kæmi ekki fram á einni nóttu. „Það sem við gerum í dag er að tala saman og koma reglu á hlutina,“ sagði hann. Hann sagði Grikki verða að koma með tillögur, það hefðu verið þeir sem gengu burt frá samningaviðræðum.
Gert er ráð fyrir því að Tsiprsas og Tsakalotos muni kynna nýjar tillögur að lausn á vandanum, en meðal þess sem búist er við að komi þar fram sé að allt að 30 prósent skulda Grikkja verði afskrifaðar. Tillögurnar eru taldar líkar tillögum lánardrottnanna sem var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni á sunnudag.
Flestir greinendur telja enn að líklegast sé að Grikkir fari úr evrusamstarfinu. Matsfyrirtækið Fitch gerir ekki einu sinni ráð fyrir því að samkomulag náist fyrir 20. júlí næstkomandi, en þá þurfa Grikkir að standa skil á 3,5 milljarða greiðslu til Seðlabanka Evrópu. Ef Grikkir ná ekki að greiða þá greiðslu er talið líklegt að bankinn loki á alla neyðaraðstoð og lýsi grísku bankanna gjaldþrota.
Grískir bankar eru áfram lokaðir í dag og á morgun, en ekki er víst að hægt verði að opna á fimmtudag þrátt fyrir áætlanir þar um. Lausafé er af mjög skornum skammti og Seðlabanki Evrópu ákvað í gær að hækka ekki neyðaraðstoð sína við grísku bankana.