Miðflokkurinn ætlar að beita uppstillingu til þess að setja saman framboðslista í öllum kjördæmum fyrir alþingiskosningarnar í haust. Í tilkynningu frá flokknum segir að þetta hafi orðið niðurstaðan hjá öllum kjördæmafélögum flokksins, en samkvæmt lögum flokksins má einnig nota þá aðferð að kjósa efstu fimm menn á lista á almennum félagsfundi í kjördæmunum.
Uppstillingarnefndir í kjördæmunum munu taka til starfa á næstu dögum og samhliða mun flokkurinn auglýsa eftir framboðum.
Fimm manns ráða í hverju kjördæmi
Samkvæmt lögum flokksins sitja fimm manns í uppstillingarnefndum, sem skipaðar eru þriggja manna kjörstjórn kjördæmafélagsins auk tveggja fulltrúa sem tilnefndir eru af stjórn Miðflokksins.
„Allir fulltrúarnir skulu búsettir í viðkomandi kjördæmi. Við uppstillingu á lista skal gæta jafnréttis. Uppstillingarnefnd skal skila tillögu um framboðslista til stjórnar kjördæmafélags og skal stjórnin bera tillöguna upp á almennum félagsfundi í viðkomandi kjördæmafélagi til samþykktar. Stjórn flokksráðs staðfestir endanlega framboðslista,“ segir í lögum flokksins um framkvæmdina.
Lítið hefur til þessa heyrst af framboðsmálum Miðflokksins, en þó hafði Fréttablaðið eftir sínum heimildum strax í janúar að töluverð spenna væri að myndast í Suðurkjördæmi, þar sem bæði Birgir Þórarinsson og Karl Gauti Hjaltason, sem gekk í þingflokk Miðflokksins eftir Klausturmálið, eru þingmenn flokksins.
Ekkert verður þó af því að almennir félagsmenn flokksins fái að kjósa þeirra á milli, eins og Fréttablaðið taldi að búast mætti við.
Fylgi flokksins í lægð í nýjustu könnunum
Miðflokkurinn er í dag með níu þingmenn, eftir að tveir bættust í hópinn úr þingliði Flokki fólksins í kjölfar Klausturmálsins. Ólíklegt er að sá þingmannafjöldi haldi sér eftir komandi alþingiskosningar, miðað við nýlegar skoðanakannanir.
Í nýjustu könnun MMR, sem framkvæmd var dagana 21. til 28. apríl, mældist Miðflokkurinn með einungis 5,8 prósenta fylgi. MMR hefur ekki mælt flokkinn svo lágan það sem af er kjörtímabilinu.
Í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup sem framkvæmdur var dagana 30. mars til 2. maí var fylgið 8,2 prósent og samkvæmt útreikningum sem RÚV birti myndi fylgið duga til þess að fá fjóra kjördæmakjörna þingmenn, einn í hverju kjördæmi utan Reykjavíkur.