Stjórn Skeljungs hefur sent frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem hún áréttar að engin ákvörðun hafi verið tekin um að boða til hluthafafundar í félaginu með það fyrir augum að breyta því í fjárfestingafélag.
Tilefnið er að á forsíðu Fréttablaðsinsí dag birtist frétt um að ráðandi hluthafar í Skeljungi, undir forystu stjórnarformannsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, séu að skoða þann möguleika að gera breytingar á samþykktum félagsins þannig að tilgangur þess verði fjárfestingastarfemi.
Í fréttinni sagði að Jón Ásgeir, sem fer fyrir Streng, stærsta hluthafa Skeljungs með rúmlega 50 prósent eignarhlut, hafi fundað með lífeyrissjóðum sem eigi stóran hlut í félaginu í síðustu viku og kynnt þessar hugmyndir fyrir þeim. Í áformunum fólst einnig að Skeljungur yrði áfram skráður á markað eftir breytinguna, og yrði þar með fyrsta fjárfestingafélagið á markaði frá því fyrir hrun. Þeir sem standa að Streng voru á meðal þeirra sem stóðu á þeim tíma á bakvið hið umsvifamikla fjárfestingafélag FL Group, sem byggði á grunni Icelandair og átti meðal annars stóran hluta í Glitni banka.
Hlutabréf í Skeljungi hafa hækkað um 4,38 prósent í Kauphöllinni í dag.
Ætluðu að fjármagna skuldsetta yfirtöku
Hópur fjárfesta, undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur og undir merkjum Strengs, reyndi að taka yfir Skeljung í fyrra. Hópurinn gerði yfirtökutilboð sem í fólst að hann var tilbúinn að greiða um tíu milljarða króna fyrir hlutafé annarra í félaginu. Hópurinn ætlaði að greiða eitthvað eigin fé en meginþorri upphæðarinnar myndi koma að láni frá tveimur kerfislega mikilvægum bönkum, Íslandsbanka og Arion banka.
Ef yfirtakan gengi eftir ætlaði hópurinn að afskrá Skeljung af markaði, selja burt fjölda eigna og nota ágóðann til að endurgreiða bönkunum tveimur. Það sem eftir myndi standa gæti hann svo nýtt í frekari fjárfestingaverkefni í framtíðinni.
Strengur tryggði sér meirihluta
Á meðal þeirra eigna sem hópurinn hafði hug á að selja ef yfirtökutilboðinu yrði tekið var P/F Magn, sem rekur ellefu smásölu- og bensínstöðvar og tvær birgðastöðvar í Færeyjum auk þess sem fyrirtækið dreifir eldsneyti til fyrirtækja, verktaka og sjávarútvegs.
Yfirtökutilboðinu var hafnað af þorra annarra hluthafa, sem eru að uppistöðu íslenskir lífeyrissjóðir.
Það skipti þó ekki miklu máli. Næstu daga eftir að yfirtökutilboðinu var hafnað með afgerandi hætti þá bætti Strengur við eignarhlut sinn í Skeljungi með kaupum á markaði og á nú rétt yfir helming hlutafjár.
Skeljungur vinnur nú að því að selja P/F Magn.