Halla Sigrún Hjartardóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (FME), hefur ekki viljað mæta fyrir efnahags- og viðskiptanefnd til að svara fyrir fjölmörg álitamál tengd viðskiptum hennar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Nefndarmönnum var gefin sú skýring að Halla Sigrún myndi láta af störfum sem stjórnarformaður FME eftir stjórnarfund 3. desember síðastliðinn, en í kjölfar umfjöllun fjölmiðla um viðskipti hennar tilkynnti Halla Sigrún að hún myndi hætta í starfinu í lok þessa árs.
Halla Sigrún hætti ekki eftir fundinn 3. desember og situr enn sem stjórnarformaður FME. Þetta kom fram í umræðum um fundarstjórn forseta í Alþingi í dag.
Halla Sigrún Hjaltadóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins.
Halla Sigrún hagnaðist um liðlega 830 milljónir króna þegar gengið var frá sölu á Skeljungi og færeyska olíufélaginu P/F Magn í lok árs 2013.Viðskipti hennar og tveggja viðskiptafélaga hennar, Einars Arnar Ólafssonar og Kára Þórs Guðjónssonar, með fyrirtækið Fjarðarlax hafa líka verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.
Ef menn ætla að víkja úr starfi, þá þurfa þeir að víkja úr starfi
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, hóf umræðuna og sagði að nefndin hefði „ítrekað reynt á undanförnum vikum að fá á fund nefndarinnar stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins til þess að fjalla um þá stöðu sem upp er komin eftir ítrekaðan fréttaflutning af málum sem hún hefur á fyrri tíð komið að og varða sölu á eignum í fyrri störfum hennar. Við höfum fengið þau svör við þeirri margítrekuðu málaleitan að hún hyggist ljúka störfum í kjölfar stjórnarfundar í Fjármálaeftirlitinu 3. desember. Hún hefur ekki fundið hjá sér tíma til þess að mæta fyrir nefndina á þeim tímum sem gefinn hefur verið kostur á. Svo heyrum við það frá Fjármálaeftirlitinu að hún sitji sem fastast sem stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins.
Ef menn ætla að víkja úr starfi þá þurfa þeir að víkja úr starfi. Þeir geta ekki setið í starfi og virt að vettugi eftirlitshlutverk Alþingis og rétt þingnefnda til þess að kalla trúnaðarmenn stjórnvalda á sinn fund“.
Þingmennirnir Svandís Svavarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar og Jón Þór Ólafsson tóku undir með Árna Páli.
Kjarninn fjallaði ítarlega um mál Höllu Sigrúnar í lok október og byrjun nóvember. Í þeirri umfjöllun kom meðal annars fram að hún hefði 36faldað fjárfestingu sínu í færeyska olíufélaginu P/F Magn á einu ári.