Stjórn Arion banka hefur ákveðið að draga til baka fyrri tillögu um umtalsverða hækkun á launum stjórnarmanna eftir að Lífeyrissjóður verzlunarmanna, þriðji stærsti eigandi bankans, lagði fram tillögu þess efnis sem átti að fara fyrir aðalfund Arion banka í dag.
Þess í stað hefur stjórnin lagt fram nýja tillögu sem byggir að mestu á tillögu sjóðsins, í samráði við hann þar sem laun stjórnarmanna verða áfram þau sömu en erlendir stjórnarmenn fá greiddar 300 þúsund krónur fast fyrir hvern stjórnarfund sem þeir sækja í eigin persónu. Það sé eðlilegt til að koma til móts við „sjónarmið um að eðlilegt sé að greiða stjórnarmönnum sem búsettir eru erlendis eingreiðslu vegna þess vinnutaps og þeirrar fyrirhafnar sem hlýst af ferðalögum til og frá landinu vegna stjórnarstarfa.“
Stjórn Arion banka hefur enn fremur ákveðið að draga til baka tillögu sína um breytingar á starfsreglum tilnefningarnefndar bankans. Þá gerir stjórn bankans þá tillögu að fjárhæð lækkunar hlutafjár verði hækkuð sem nemur 40 milljón hlutum með eyðingu á eigin bréfum, þannig mun nafnverð hlutafjár lækka úr 1.730.000.000 krónum í 1.660.000.000 krónur.
Stjórn Arion banka hafði lagt til að mánaðarlaun stjórnarmanna verði 600 þúsund krónur á mánuði, að mánaðarlaun varaformanns verði kr. 900 þúsund krónur og að mánaðarlaun stjórnarformannsins, Brynjólfs Bjarnasonar, verði 1,2 milljónir króna á mánuði. Auk þess áttu stjórnarmenn sem búsettir eru erlendis að fá 300 þúsund krónur fyrir ferðalög vegna hvers stjórnarfundar sem þeir sækja í eigin persónu. Þar að auki yrði heimilt að greiða þeim stjórnarmönnum sem sitja í undirnefndum stjórnar 200 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund, en þó að hámarki 400 þúsund krónur á mánuði. Formenn stjórnarnefnda áttu að geta fengið 300 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund, en þó aldrei meira en 600 þúsund krónur á mánuði.
Kjarninn greind i frá því í gær að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði lagst gegn launahækkuninni og lagt til að „mánaðarlaun stjórnarmanna verði kr. 490.900, mánaðarlaun varaformanns verði kr.736.200 en mánaðarlaun stjórnarformanns verði kr. 981.400.“ Lífeyrissjóðurinn Gildi, stærsti einstaki eigandi bankans, hafði áður tilkynnt að hann myndi greiða atkvæði gegn tillögu stjórnar Arion banka.