Svandís Svavarsdóttir telur að áður en ákvörðun sé tekin um framtíð hvalveiða þurfi að gera úttekt á hvort slíkar veiðar skili þjóðarbúinu efnahagslegum ávinningi.
Þetta kemur fram skriflegu svari ráðherrans til Kjarnans þar sem hún var spurð út í afstöðu gagnvart því að fyrirtækið Hvalur hf. hyggist fara á hvalveiðar í sumar.
Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., greindi frá því í samtali við Morgunblaðið í vikunni að fyrirtækið hygðist fara á veiðar í sumar. Hann reiknar með að veiðarnar hefjist í júní og standi fram í september eftir því sem veður leyfir.
Reiknað er með að um 150 manns starfi á hvalveiðiskipunum, í hvalstöðinni í Hvalfirði og í vinnslu fyrirtækisins í Hafnarfirði, samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Þar sé hluti afurðanna unninn. Kristján metur markaðshorfur betri nú en undanfarin ár.
Þá greinir Kristján frá því að Hvalur hf. „hafi lent í langri togstreitu við Matvælastofnun (MAST) vegna hvalstöðvarinnar í Hvalfirði“. Það sé aðalástæða þess að ekki hafi verið haldið til hvalveiða eftir árið 2018 fyrr en nú. Hvalur hf. fékk ótímabundið leyfi til vinnslu hvalaafurða árið 2021.
Unnið verður mat á mögulegum þjóðhagslegum og samfélagslegum áhrifum hvalveiða
Svandís bendir á í svari sínu til Kjarnans að Hvalur hf. hafi tilskilin leyfi til hvalveiða í sumar samkvæmt núverandi reglugerðum, og því stjórnenda og eigenda Hvals hf. að meta hvort fyrirtækið nýti sér það leyfi.
Þá telur hún að í núverandi stöðu virðist vera fátt sem rökstyður það að heimila hvalveiðar eftir árið 2024.
„Á þessu ári verður unnið mat á mögulegum þjóðhagslegum og samfélagslegum áhrifum slíkrar ákvörðunar og ákvörðun tekin í framhaldinu. Síðustu þrjú ár hafa engin stórhveli verið veidd en ein hrefna var veidd árið 2021. Fátt bendir til þess að það sé efnahagslegur ávinningur að því að stunda þessar veiðar, þar sem þau fyrirtæki sem hafa leyfi til hvalveiða hafa ekki nýtt þau. Ástæður þessa geta verið nokkrar en má vera að viðvarandi tap af þessum veiðum sé líklegasta ástæðan,“ segir ráðherrann.
Hæpið að halda því fram að veiðarnar séu sjálfbærar í félagslegum skilningi
Svandís hefur áður tjáð sig um hvalveiðar síðan hún varð matvælaráðherra en hún sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í byrjun febrúar að óumdeilt væri að hvalveiðar hefðu ekki haft mikla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðarbúið á síðustu árum og að óbreyttu væri það fátt sem rökstyddi heimildir til áframhaldandi veiða eftir að slíkar heimildir falla úr gildi á næsta ári.
„Þó að hvalveiðar við Íslandsstrendur séu sjálfbærar í þeim skilningi að ekki sé verið að ganga um of á stofnstærð þá er hæpið að halda því fram að veiðarnar séu sjálfbærar í félagslegum eða efnahagslegum skilningi. Japanir hafa verið stærstu kaupendur á hvalkjöti en neysla á því fer minnkandi ár frá ári. Því ætti Ísland að taka þá áhættu að viðhalda veiðum sem hafa ekki skilað efnahagslegum ábata til þess að selja vöru sem lítil eftirspurn er eftir?“ spyr hún í greininni.
Fóðrar egó eins milljónamærings
Ekki eru allir ánægðir með ákvörðun Hvals hf. að veiða í sumar. Rithöfundurinn Sigurjón Birgir Sigurðsson, sem iðulega er kallaður Sjón, ein einn þeirra en hann hvatti fólk til að mótmæla fyrirhuguðum hvalveiðum á Twitter í gær.
Hann skrifar færsluna á ensku og bendir á að Svandís Svavarsdóttir sé sjávarútvegsráðherra hér á landi. „Verið svo væn að senda tölvupóst á ráðuneyti hennar til þess að mótmæla þessari áframhaldandi villimennsku sem einungis fóðrar egó eins milljónamærings í landinu okkar.“
The minister of fisheries in Iceland is Svandís Svavarsdóttir (@svasva), who also is the vice chairman of the left-green party. Please email her ministry your protest against this ongoing barbarism, that only feeds the ego of one billionaire in our country. email: mar@mar.is https://t.co/yvhMHKrec2
— Sjón 🇺🇦 (@Sjonorama) March 23, 2022