Þeir níu stjórnmálaflokkar sem fengu nægjanlegt fylgi í síðustu þingkosningum til að fá úthlutað fjármunum úr ríkissjóði fá samtals 728,2 milljónir króna til að skipta á milli sín á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem lagt var fram í síðustu viku.
Um er að ræða þá átta flokka sem eiga fulltrúa á þingi auk Sósíalistaflokks Íslands sem hlaut nægjanlegt fylgi í síðustu kosningum til að hljóta framlag.
Það er sama upphæð og flokkarnir fengu samtals í fyrra og sama upphæð og þeir fengu í ár. Raunar gera áætlanir stjórnvalda ráð fyrir því að hún haldist óbreytt út árið 2024. Haldi það munu stjórnmálaflokkar landsins alls hafa fengið 3.641 milljónir króna úr ríkissjóði á fimm ára tímabili.
Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Geta sótt sér viðbótarfé og Alþingi greiðir kostnað við starfsmenn
Fulltrúar allra flokka á Alþingi, þar á meðal sex formenn stjórnmálaflokka, lögðu svo sameiginlega fram frumvarp til að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í lok árs 2018. Það var afgreitt sem lög fyrir þinglok þess árs.
Á meðal breytinga sem það stuðlaði að var að leyfa stjórnmálaflokkum að taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlag var 400 þúsund krónur en var breytt í 550 þúsund krónur.
Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda sé hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Því hafa tækifæri stjórnmálaflokka til að taka við upphæðum frá einstaklingum og fyrirtækjum verið aukin samhliða því að upphæðin sem þeir fá úr ríkissjóði var rúmlega tvöfölduð.
Til viðbótar við þær greiðslur er kostnaður vegna starfsmanna þingflokka greiddur af Alþingi.