Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Auglýsing

Á fundi sínum á Egilsstöðum á föstudag velti ríkisstjórnin því fyrir sér hvað það þýði fyrir Ísland að vera búið að bólusetja hátt hlutfall þjóðarinnar en samt sem áður vera að eiga við COVID-19, sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í viðtali við Kristján Kristjánsson stjórnanda þjóðmálaþáttarins Sprengisands á Bylgjunni í morgun.

Ráðherra sagðist telja að öll þau sem sátu við ríkisstjórnarborðið í Hótel Valaskjálf fyrir helgi hefðu verið meðvituð um að verið væri að stíga inn í nýjan kafla. Hún sagði að samstaða hefði verið í stjórninni þegar stigið hefði verið út af fundi um þær aðgerðir sem ákveðið var að grípa til og hún sem heilbrigðisráðherra ber stjórnskipulega ábyrgð á.

Svandís sagði að í gegnum faraldurinn hefði ríkisstjórnin ávallt haft þann háttinn á að hún hefði rætt niðurstöðuna við ríkisstjórnina, því þrátt fyrir að hin stjórnskipulega staða sé skýr „þurfum við líka að hafa pólitískt skýra stöðu“. Hún sagði þó í viðtalinu ljóst að faraldurinn og viðbrögð við honum yrðu til umræðu fyrir alþingiskosningar, sem fara fram eftir tvo mánuði.

„Um þetta verður rætt og þetta er eitt af því sem verður á dagskrá,“ sagði Svandís og játaði því að „spurningar og efasemdir“ hefðu verið settar fram í hverju skrefi í umræðum innan ríkisstjórnarinnar, sem hefði þó „í meginatriðum“ verið samstíga um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til.

Hún sagði að hver stjórnmálamaður þyrfti að svara fyrir sig þegar nær dragi kosningum, þótt á henni væri að heyra að hún vildi forðast það að sóttvarnaráðstafanir yrðu „pólitískt bitbein“ fyrir kosningar.

Svandís sagði að í löndum þar sem sjónarmið um viðbrögð við veirunni hefðu mótast fyrst og fremst af pólitískri afstöðu um hvað ætti að gera hefði það smitast út í samfélagið og haft áhrif á það hvernig fólk tæki þátt í sóttvarnaráðstöfunum. Hér á landi myndi reyna á stjórnmálin á næstu vikum, um að falla ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að pólitísku bitbeini.

Staðan skýrist á næstu tveimur vikum

Í gær greindust 88 smit innanlands og hlutfall smitaðra af þeim sem mættu í einkennasýnatöku var hærra en undanfarna daga, eða 4,58 prósent. Svandís sagði að á meðan að óvissa væri um hvernig þeim smitum sem þegar hafa greinst undanfarna daga í upphafi þessarar nýju bylgju vindur fram væri óásættanlegt að grípa ekki í taumana með hertum aðgerðum.

Auglýsing

„Við höfum alltaf talað um þetta tvennt, að verja kerfið okkar og verja viðkvæma hópa. Og þá segir, okkar besta fólk, bíddu nú við, við þurfum að sjá hvernig þessum smitum vindur fram. Hvað þýða þessi 70-80-90 smit á dag, hvert munu þau leiða?“ spurði Svandís og svaraði því síðan sjálf að svarið við því myndi fást á næstu 10-14 dögum, er í ljós kæmi hversu margir af þeim sem smitast hafa veikist alvarlega.

Hún nefndi nokkrum sinnum það sem fram hefur komið í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, að verið sé að vinna í rauntíma og upplýsinga sé verið að afla jafnharðan, nú þegar hið svokallaða delta-afbrigði veirunnar er komið til sögunnar og orðið ráðandi í útbreiðslu COVID-19.

Bólusetningar hluti af framtíðinni?

Rúm 85 prósent landsmanna yfir 16 ára aldri eru nú fullbólusett og um 5 prósent til viðbótar á þeim aldri hafa fengið eina sprautu. Svandís sagði ljóst að bólusetningar væru „í grunninn að verja okkur mjög vel fyrir alvarlegum veikindum“ en að til framtíðar litið væri staðan sú að ef kórónuveiran yrði hluti af lífi okkar yrðu reglulegar bólusetningar það mögulega líka. Þá þyrfti einnig að velta fyrir sér hvaða ráðstafanir þyrfti að hafa uppi, á landamærum og innanlands og hversu varanlegar þær þurfi að vera.

Viðraði stofnun sóttvarnastofnunar

Svandís sagði einnig í viðtalinu að það væri spurning hvort mögulega þyrfti að styrkja heilbrigðiskerfið til framtíðar. Veirufaraldurinn hefði verið unninn eins og „átaksverkefni“ sem nú hefur staðið yfir í bráðum eitt og hálft ár. Hún sagði að þrátt fyrir að íslenska kerfið væri sterkt á alþjóðavísu og starfsfólk vel menntað væri „mjög þunnt smurt“.

Hún sagði að við þyrftum að segja við okkur sjálf, „þurfum við ekki varanlega styrkingu fyrir heilbrigðiskerfið okkar“ og viðraði því næst að mögulega þyrfti að setja upp einhverja sóttvarnastofnun innanlands.

Heilbrigðisráðherra segir álag á sóttvarnalækni hafa verið langt umfram það sem eðlilegt sé og viðrar stofnun sóttvarnastofnunar. Mynd: Almannavarnir

Svandís sagði að viðbrögðin við faraldrinum hefðu upphaflega átt að verða aukaverkefni fyrir sóttvarnalækni en hefði síðan orðið að álagi sem væri langt umfram það sem eðlilegt væri að leggja á einn mann og hans nánasta samstarfsfólk í eitt og hálft ár.

Heilbrigðisráðherra mærði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og sagði að við hefðum verið „með ólíkindum heppin með sóttvarnalækni, ekki bara vegna þess hve hann er öflugur vísindamaður heldur hversu gott lag hann hefur á að miðla upplýsingum og ræða við almenning.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdragandi alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent