Senn verður bið fjölmargra aðdáenda Stjörnustríðsmyndanna eftir að þær verði aðgengilegar á netinu á enda, því allar sex Star Wars kvikmyndirnar verða í boði til niðurhals á netinu frá og með föstudeginum. Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá tíðindunum.
Star Wars bíómyndirnar, frá „The Phantom Menace“ til „Return of the Jedi“ verða aðgengilegar til niðurhals á nokkrum stafrænum afþreyingaveitum, þeirra á meðal eru iTunes, Google Play, Amazon, Vudu og PlayStation Store.
Samkvæmt heimildum USA Today mun hver mynd kosta 20 Bandaríkjadali, en svo er hægt að kaupa alla seríuna á 100 dali, eða um 13.600 íslenskar krónur. Með hverri mynd fylgir mikið aukaefni, áður óbirtar senur, misheppnaðar tökur og sögur af tökustað.
Disney, sem keypti kvikmyndafyrirtækið Lucasfilm af George Lucas árið 2012 fyrir rúma fjóra milljarða Bandaríkjadala og þar með réttinn að Star Wars og Indiana Jones vörumerkjunum, ákvað að halda kvikmyndabálknum frá streymiveitum á borð við Netflix og bjóða þess í stað upp á niðurhal í bestu mögulegum gæðum með fjölbreyttu aukaefni.
Til að hita upp fyrir stafræna útgáfu Stjörnustríðsmyndanna var útbúin stikla. Hana má berja augum hér að neðan.
Eins og flestir aðdáendur Star Wars myndanna vita mætavel, er von á að sjöunda kvikmyndin í vinsælustu kvikmyndaröð sögunnar þann 18. desember næstkomandi. Myndin hefur hlotið nafnið „The Force Awakens“ og gerist eftir „Return of the Jedi,“ sem frumsýnd var árið 1983. Á þessu ári verða liðin tíu ár frá því að síðasta Star Wars mynd var frumsýnd, „Revenge of the Sith,“ sem fékk afar misjafnar móttökur gagnrýnenda sem og tvær Stjörnustríðsmyndirnar á undan henni, það er „The Phantom Menace“ og „Attack of the Clones.“
Sjá stiklu úr fyrstu Star Wars myndinni úr smiðju Disney hér að neðan, en hún lofar góðu.