Japönsk stjórnvöld áforma nú að skylda fólk til þess að taka að minnsta kosti fimm frídaga á ári, til þess að reyna að draga úr andlegu og líkamlegu álagi.
Stór hluti starfsfólks í landinu notar innan við helming þess frís sem það vinnur sér inn á ári, samkvæmt könnun vinnumálayfirvalda þar í landi. Könnunin gaf til kynna að árið 2013 hafi starfsfólk að meðaltali aðeins tekið sér níu af þeim 18,5 dögum sem það átti rétt á. Önnur könnun sýndi fram á að einn af hverjum sex tók sér ekkert launað frí allt árið 2013.
Stjórnvöld vilja auka fríið um 70 prósent fram til ársins 2020 og til stendur að leggja fram frumvarp um það á þingi fljótlega að fólk verði skyldugt til þess að taka sér minnst fimm frídaga. Samtök atvinnurekenda hafa barist fyrir því að frídagarnir yrðu þrír, en verkalýðsfélög berjast fyrir því að þeir verði átta.
Samkvæmt japönskum lögum eru fyrirtæki skyldug til að veita starfsmönnum að minnsta kosti tíu daga í launað leyfi á hverju ári, og fjöldi daga eykst um einn með hverju ári sem þeir vinna. Hámarksfjöldi frídaga eru 20 dagar. Lögin gera hins vegar ráð fyrir því að starfsfólkið sæki sér þennan rétt sjálft, og ef það gerir það ekki eru fyrirtækin ekki að brjóta gegn lögunum.
Langir vinnudagar og ólaunuð yfirvinna hafa verið taldar helstu ástæður að baki andlegum og líkamlegum veikindum meðal vinnuafls í landinu. Hugtakið karoshi er notað yfir fólk sem deyr vegna of mikillar vinnu. Hugtakið hefur verið til í japönskum orðabókum í nokkur ár eftir mikla aukningu dauðsfalla sem tengdust streitu og sjálfsvígum.
Ungt fólk á vinnumarkaði þarf oft að vinna allt að hundrað klukkutíma á mánuði í yfirvinnu. Tveir af hverjum þremur starfsmönnum segjast ekki vilja taka fríið sitt vegna þess að það myndi bitna á samstarfsmönnum þeirra. Meira en helmingur fólks segist einnig einfaldlega ekki hafa tíma til að taka sér frí vegna álags í vinnunni.