Stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum sem birtist í fjárlagafrumvarpinu er ekki til þess fallin að stuðla að sátt á vinnumarkaði að mati Alþýðusambands Íslands. Í umsögn sambandsins við fjárlagafrumvarp næsta árs segir að í frumvarpinu megi finna sömu stefnumörkun og þá sem birtist í fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 en sambandið gagnrýndi umrædda stefnumörkun í eldri umsögn við fjármálaáætlun.
„Í umsögninni benti ASÍ á að brýnt væri að opinber fjármál myndu ekki ýta undir þenslu samhliða aukinni verðbólgu og vaxandi efnahagsumsvifum. Þar varaði sambandið við því að farin yrði leið niðurskurðar og aukinna álaga á heimili. Sú leið myndi ekki leggja grunn að stöðugleika á vinnumarkaði,“ segir í umsögn ASÍ við fjárlagafrumvarpið um eldri umsögnina.
Samtökin benda á að tekjuöflun ríkisins felist einkum í hækkun krónutölugjalda og nefskatta til viðbótar við aukna skattlagningu á ökutæki og notkun bifreiða. Enn fremur reyni stjórnvöld að tempra útgjöld með því að fresta fjárfestingum, auka aðhald og lækka framlög til mikilvægra málaflokka.
„Umdeildar skattalækkanir“ hluti vandans
„Með fjárlagafrumvarpi verður ekki annað séð en að stjórnvöld skili auðu í að bæta afkomu heimila í aðdraganda kjarasamninga. Þar er ekki að finna nauðsynlegar umbætur í velferðar- eða húsnæðismálum og þær leiðir sem valdar eru til tekjuöflunar verða til þess að auka byrðar á launafólk. Slík stefna mun ekki stuðla að sátt á vinnumarkaði,“ segir í umsögn sambandsins.
Sambandið bendir á að þörfin á aukinni gjaldheimtu skýrist að hluta á „umdeildum skattalækkunum í heimsfaraldri m.a. lækkun á bankaskatti og hækkun á frítekjumarki fjármagnstekna.“
Þarna vísar ASÍ meðal annars í breytingar á lögum um tekjuskatt sem samþykktar voru í desember árið 2020 og höfðu í för með sér lækkun á fjármagnstekjuskatti. Frítekjumark fjármagnstekjuskatts var þá tvöfaldað, fór úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund krónur. Innan frítekjumarksins má einnig færa arðgreiðslur og söluhagnað skráðra hlutabréfa í kjölfar lagabreytingarinnar en áður féllu einungis vaxtatekjur af innlánum innan frítekjumarksins.
Að því er fram kemur í umsögn ASÍ hefur þessi breyting helst nýst tíu prósentum tekjuhæstu fjármagnseigenda og kostnaðurinn, þ.e. tekjumissir ríkissjóðs, vegna útfærslunnar numið 1,6 til tveimur milljörðum króna.
Takmörkun tekjutilflutnings geti skilað milljörðum
ASÍ hefur gert tillögur að úrbótum á íslensku skattkerfi sem „auka myndu skilvirkni skattkerfisins og efla tekjustofna“ í skýrslu sem nefnist Skattar og ójöfnuður. Sambandið vísar í þessa skýrslu í umsögn sinni og bendir á leiðir sem eflt gætu tekjuöflun ríkisins en jafnframt tekjujöfnun.
„Efla má tekjujöfnun með ólíkum leiðum, t.d. skynsamlega útfærðum stóreignaskatti eða breytingum á skattlagningu fjármagnstekna,“ segir í umsögninni. Einnig er bent á veikleika í skattkerfinu sem stafar af hvötum til tekjuflutnings sem felst í því að launatekjur eru ranglega skráðar sem fjármagnstekjur. Að mati sambandsins mætti auka árlegar skatttekjur um á bilinu þrjá til átta milljarða króna með því að setja reglur sem takmarka tekjutilflutning, auk þess sem slíkar reglur gætu styrkt tekjuöflun sveitarfélaga.
„Hófleg“ komugjöld og skýr rammi um auðlindagjöld
Þá segir sambandið að hægt sé að bæta tekjuöflun ríkisins með auknum auðlindagjöldum og komugjaldi sem leggjast myndi á komur ferðamanna til landsins. „Að lokum var lagt til í skýrslunni að mótaður yrði skýr rammi utan um skattlagningu nýtingar auðlinda (t.d. fiskveiði, fiskeldi, framleiðsla raforku) Þar var bent á að auðlindarenta í fiskveiði væri metin á 30-70 milljarða á ári á tímabilinu 2008-2019. Árið 2020 var renta metin á 51 milljarð en í frumvarpi er áætlað að veiðigjöld verði 9,8 milljarðar árið 2023, þar af er 1,5 milljarður vegna verðmætagjalds í fiskeldi.“
Að mati ASÍ er skattlagning sem ætlað er að mæta ytri áhrifum mikilvæg og dæmi um slíka skattlagningu gæti verið komugjöld. Innheimt komugjöld gætu þannig greitt fyrir kostnað hins opinber sem hlýst af komu ferðamanna, til að mynda vegna slits á vegum, kostnað vegna heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Talað hafi verið um komugjald upp á þrjú þúsund krónur en slíkt gjald hefði aflað ríkinu 5,3 milljarða króna fyrir þann fjölda ferðamanna sem hingað hefur komið það sem af er ári.
Styrkja þurfi vaxtabótakerfið og bæta stöðu leigjenda
Að mati ASÍ ætti vaxtabótakerfið að dempa áhrif aukinna vaxtagjalda heimilanna, „en gerir það ekki.“ Það sé vegna þess að fjárhæðir vaxtabótakerfisins hafi ekki haldið í við þróun launa og eignaverðs. Til að mynda hafi vaxtabætur numið um þremur prósentum af vaxtagjöldum heimila árið 2020 samanborið við 20 prósent á árunum 2008 til 2010.
Að sama skapi þurfi að bregðast við stöðunni á leigumarkaði með eflingu húsnæðisbótakerfisins, aukningu framlaga til óhagnaðardrifinna leigufélaga, með því að efla vernd og húsnæðisöryggi leigjenda og koma á svokallaðri leigubremsu.
Bætur dragist aftur úr lágmarkslaunum
Þá segir sambandið í umsögn sinni að boðuð hækkun á bótum almannatrygginga muni ekki brúa þá gliðnun sem átt hafi sér stað milli lífeyrisgreiðslna og þróunar lágmarkslauna en gert er ráð fyrir að bæturnar hækki um sex prósent. Bæturnar voru hækkaðar um 3,8 prósent í síðastu fjárlögum og hækkaðar um þrjú prósent til viðbótar með verðlagsuppfærslu í sumar.
„Alþýðusambandið hefur áður bent á að samkvæmt lögum um almannatryggingar ber að hækka bæturnar í takt við launaþróun en þó þannig að þær haldi í við verðlag. Þetta hefur hins vegar ekki verið reyndin.“
Sambandið gagnrýnir einnig að bætur atvinnuleysistrygginga hafi ekki verið hækkaðar til jafns við þróun bóta almannatrygginga. „ASÍ kallar eftir því að þessari þróun verði snúið við og bendir á að grunnbætur atvinnuleysistrygginga eru í dag um 85% af lægsta taxta á vinnumarkaði en voru til jafns við lægsta taxta árið 2019,“ segir í umsögn Alþýðusambands Íslands við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023 sem skrifuð er af Róberti Farestveit hagfræðingi og sviðsstjóra stefnumótunar og greiningar ASÍ.