Eitt umtalaðasta stefnumálið sem fram hefur komið í kosningabaráttunni til þessa er stóreignaskattur, sem Samfylkingin segist vilja leggja á hreina eign yfir 200 milljónum króna.
Skatturinn sem flokkurinn sér fyrir sér á að nema 1,5 prósenti, eða 15 þúsund krónum á ári á hverja milljón hreinnar eignar fólks sem á yfir 200 milljónir. Frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa sagt að þetta gæti skilað um níu milljörðum króna í ríkissjóð, sem nota mætti til að fjármagna loforð flokksins um útvíkkun barnabóta.
Deilt hefur verið um lögmæti þessarar skattlagningar undanfarna daga á opinberum vettvangi. Síðasta föstudag birtist á forsíðu Morgunblaðsins frétt um að Teitur Björn Einarsson frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi teldi skattinn ekki standast stjórnarskrá, „hvað sem hugmyndafræðingum Samfylkingarinnar kann að finnast“.
Þessari gagnrýni var svarað um hæl af Jóhanni Páli Jóhannssyni frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem sagði í grein á Vísi að það væri „kostulegt að fylgjast með taugaveiklun Sjálfstæðismanna“ vegna málsins. Teitur Björn svaraði honum svo á ný, einnig í grein á Vísi og sagði lítið fara fyrir svörum um það hvernig stóreignaskattur bryti „ekki gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæði.“
Tveir fræðimenn í lögfræði, Sindri M. Stephensen lektor við HR og Víðir Smári Petersen dósent við HÍ, rýna í málið í aðsendri grein á Vísi í dag og komast að því, án þess að taka nokkra afstöðu til þess hvort skattlagningin væri skynsamleg eða ekki, að hún gæti staðist jafnræðisreglu og eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Stóreignaskattar, skrifa þeir, eru að meginreglu stjórnskipulega gildir.
Teitur Björn og aðrir sem hafa sett fram efasemdir eða fullyrðingar um hvort stóreignaskattur standist lög hafa vísað til þess að auðlegðarskatturinn sem settur var á í stjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna fyrir röskum áratug síðan hafi verið settur á við óvenjulegar aðstæður, er ríkissjóður var í mikilli krísu. Auk þess hafi hann verið tímabundinn og Hæstiréttur vísað til þess er komist var að þeirri niðurstöðu að skattlagningin væri lögmæt.
Fleiri rök en bara Hrunið og tímabinding
Þeir Sindri og Víðir Smári vekja hins vegar athygli á því að Hæstiréttur hafi jafnframt fært önnur rök til stuðnings lögmætis skattlagningarinnar. Þeir segja að draga megi þrjár almennar ályktanir af dómum Hæstaréttar í stóreigna- og auðlegðarskattsmálum.
Í fyrsta lagi, að dómstólar játi löggjafanum verulegt svigrúm til að ákveða hvernig skattlagningu skuli háttað í einstökum atriðum. Í annan stað, að almennt sé heimilt að innheimta stóreignaskatt og hann megi vera stighækkandi eftir því sem verðmæti eigna er meira. Í þriðja lagi, að það komi ekki í veg fyrir eignaskatta þótt tekjur gjaldenda standi ekki undir greiðslu skattsins.
„Þetta þýðir, með öðrum orðum, að stóreignaskattur er að meginreglu stjórnskipulega gildur. Skoðast það í ljósi þess að samkvæmt stjórnarskrá er það löggjafans að ákveða skipan skattlagningar hér á landi og því eðlilegt að dómstólar játi handhafa skattlagningarvalds víðtækt svigrúm í þessum efnum, sem skoðast jafnframt í ljósi þrígreiningar ríkisvaldsins. Eftir sem áður skiptir útfærsla slíkra skatta miklu máli í stjórnskipulegu tilliti, þannig að gætt sé m.a. jafnræðis og meðalhófs,“ segir í grein þeirra Sindra og Víðis Smára á Vísi í dag.
Við @sindristeph birtum grein á Vísi í morgun um stóreignaskatta og stjórnarskrá. Meginniðurstaðan frá lagalegu sjónarhorni er að slíkir skattar eru stjórnskipulega gildir, en útfærsla þeirra skiptir máli. #lögfræðitwitter Sjá hér: https://t.co/7wQVVUPF8k
— Víðir Smári Petersen (@VidirPetersen) September 6, 2021
Þar segja þeir einnig að aðalatriðið við mat á því hvort stóreignaskattar séu lögmætir sé að horfa til þess „hve íþyngjandi þeir eru til lengri tíma“ og segja lága stóreignaskatta ólíklega til að fela í sér eignaupptöku.
„Þannig má nefna að 1,5% skattur í 10 ár felur samanlagt í sér u.þ.b. 15% skattlagningu. Til samanburðar var samanlagt skatthlutfall stóreignaskattsins árin 1949 og 1956 allt að 50% á sjö ára tímabili en sú skattlagning samrýmdist kröfum stjórnarskrár,“ skrifa Sindri og Víðir Smári, sem segja einnig að það mætti hugsa sér ýmsar útfærslur sem stuðli að meðalhófi við álagningu stóreignaskatts, til dæmis hækkun skattsins í skrefu eða heimild til þess að dreifa skattgreiðslum.