Smári Ólafsson, sviðsstjóri akstursþjónustu hjá Strætó, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann biður stúlkuna sem varð eftir í bíl fyrirtækisins fyrr í dag afsökunar. Í tilkynningu Smára segir:
"Í dag átti sér hörmulegt atvik þar sem ung stúlka varð eftir í bíl fyrirtækisins. Við hörmum þetta atvik meira en orð geta lýst og viljum biðja stúlkuna og fjölskyldu hennar afsökunar. Málið er nú til rannsóknar og verður allt gert til að komast til botns í því.
Aftur vil ég taka það fram að okkur starfsfólki fyrirtækisins er afar brugðið yfir því að þetta skyldi gerast."
Stúlkan, sem heitir Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir, er átján ára og þroskaskert. Hennar var leitað í dag og í kvöld fannst inni í bíl ferðaþjónustu fatlaðra, sem var lagt við heimili bílstjórans. Rúv greindi frá þessu í kvöld. Lýst var eftir stúlkunni þegar uppgötvaðist að hún hafði ekki skilað sér í Hitt húsið eftir hádegið í dag. Björgunarsveitir leituðu að henni og hún kom í leitirnar heil á húfi um klukkan átta í kvöld. Þá hafði hún væntanlega verið inni í bílnum frá því klukkan eitt í dag.
Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir aukafundi í Velferðarnefnd Alþingis til að ræða þá stöðu sem komin er upp í tengslum við ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Í tölvupósti hennar til nefndarinnar segir: "Ég óska eftir því að fá fulltrúa úr borgarstjórn Reykjavíkur á fundinn, aðila frá Þroskahjálp, Öryrkjabandalaginu og fleiri hlutaðeigandi aðilum. Það er fullt erindi að mínu mati að ræða þá alvarlegu stöðu sem komin er upp".