Hnífaárás sem á þriðja tug manna stóð fyrir á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudagskvöld er skýr birtingarmynd um neyðarástand í geðheilbrigðismálum að mati Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata.
Henni blöskrar viðbragðs- og aðgerðarleysi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra í geðheilbrigðismálum og beindi hún fyrirspurn sinni á Alþingi í dag til ráðherra.
„Heilbrigðiskerfið okkar hefur hangið á sama lúna bláþræðinum árum saman og hefur aldrei nein alvöru uppbygging átt sér stað eftir þann mikla niðurskurð sem varð í málaflokknum eftir hrun.“
„Skaðinn sem hlýst af því að hunsa mikilvægi þeirrar grunnþjónustu sem hlúir að andlegu og líkamlegu heilbrigði okkar getur verið óafturkræfur. Þessi þjónusta á að grípa okkur þegar við eigum í erfiðleikum,“ sagði Halldóra, sem telur heilbrigðiskerfið bæði vera að bregðast þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og þeim sem vinna innan þess.
Enn eitt stríðið gegn fólki sem fær ekki viðunandi aðstoð
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra boðar stríð gegn skipulagðri glæpastarfsemi með átaki sem lögreglan mun ráðast í fljótlega. Jón greindi frá stríðsyfirlýsingunni í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Tilefnið er hnífstunguárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudag þar sem hópur grímuklæddra manna réðst inn á staðinn og stakk tvo menn ítrekað.
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að átökin, sem eru á milli tveggja hópa, minni „bara á Sturlungaöldina þegar íbúar héraða herjuðu hverjir gegn öðrum“. Þá segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Vísi að lögreglan muni ekki eftir eins umfangsmiklum átökum í undirheimum.
„Það á að fara í enn eitt stríðið gegn fólki sem er að öllum líkindum í rótina að kljást við afleiðingar langvarandi áfallastreitu. Stríð gegn fólki sem aldrei hefur fengið viðunandi aðstoð. Ofbeldi verður nefnilega ekki til í tómarúmi. Áföll ganga í erfðir og valda hringrás sem endar ekki nema gripið sé inn í með aðstoð heilbrigðiskerfisins. Ofbeldi getur nefnilega af sér ofbeldi og stríð gegn ofbeldi er ekki svarið, svarið er í heilbrigðiskerfinu hjá heilbrigðisráðherra,“ sagði Halldóra.
Þögn heilbrigðisráðherra ærandi
Willum sagði vissulega mikið álag búið að vera á heilbrigðiskerfinu í langan tíma. Hann sagðist horfa til stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi í júní og kveður meðal annars á um stofnun sérstaks geðráðs.
„Ef hægt er að tala um að eitthvað hafi verið gert betur hér og í samfélaginu okkar varðandi þessi mál þá er það einmitt opin og fordómalaus umræða. Það er algjör lykill að því að geðsjúkdómar og aðrir tengdir sjúkdómar, eins og fíknisjúkdómar, valdi ekki jaðarsetningu einstaklinga og að við náum betur utan um þessa hópa. Það er mjög jákvætt,“ sagði Willum.
Halldóra sagðist ekki vera vön að missa skapið við heilbrigðisráðherra. „En þögn hans núna hefur bara verið ærandi og það eru gríðarleg vonbrigði að verða vitni að því andleysi sem einkennir störf hæstv. heilbrigðisráðherra því það er neyðarástand í gangi. Það er neyðarástand í geðheilbrigðismálum og við erum að sjá birtingarmynd þess alls staðar í samfélaginu okkar.“
Hún sagði því næst að svo virðist vera sem nóg fjármagn sé til hjá dómsmálaráðherra til að fara í stríð gegn fólki. „Þá hlýtur að vera til peningur til að hjálpa fólki,“ sagði Halldóra, sem spurði Willum hvort hann væri sáttur við þessa forgangsröðun?
„Ætlar ráðherra að tryggja raunverulegt forvarnastarf þannig að við getum komið í veg fyrir harmleiki framtíðarinnar?“
Willum sagði þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslu hafa verið styrktaum allt land. „Það er mjög mikilvægt skref og við höldum áfram á þeirri braut. Auðvitað horfi ég til þeirrar aðgerðaáætlunar sem er í vinnslu. Það er okkar hlutverk að móta stefnuna, fara með hana í umræðu í gegnum þingið, fylgja henni eftir eins og þingið mælir fyrir um í formi þingsályktunartillögu og láta aðgerðirnar ganga upp. Það er okkar vinna. Það er okkar verkefni.“