Borgarráð hefur samþykkt að úthluta Félagsstofnun stúdenta (FS) íbúðarhúsalóðum við Vatnsstíg 12 og 12a í miðbæ Reykjavíkur. Heimilað byggingarmagn á hvorri lóð fyrir sig er allt að 180 fermetrar og á hvorri þeirra má byggja allt að sjö einstaklingsíbúðir.
Hjá Félagsstofnun fengust þær upplýsingar að vinna við uppbyggingu geti hafist í fyrsta lagi um mitt næsta ár. Fyrst þurfi að klára byggingarframkvæmdir á Lindargötu 44 en FS vinnur nú að því að rífa hús á lóðinni og reisa annað sem hentar starfseminni betur. FS hefur átt húsbygginguna á Lindargötu 44 í nokkur ár og í henni hafa verið þrjár stúdentaíbúðir. Í nýju húsi við Lindargötu verða tíu íbúðir fyrir stúdenta.
Á meðan sú vinna stendur yfir er unnið að hönnunarvinnu fyrir fyrirhuguð hús á Vatnsstíg. Til stendur að hafa í þeim litlar einstaklingsíbúðir með baðherbergi og sameiginlegri eldhúsaðstöðu. Gert er ráð fyrir framkvæmdir við Vatnsstíg muni taka í það minnsta 12 til 14 mánuði eftir að þær hefjast á næsta ári.
Þurfa að flytja friðað hús nokkra metra
Í bréfi frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara sem lagt var fyrir fund borgarráðs í síðustu viku kemur fram að FS muni greiða 45 þúsund krónur á hvern fermetra fyrir byggingarrétt við Vatnsstíg, alls 16,2 milljónir, en það er verð byggingarréttar fyrir húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Til viðbótar greiðir FS rúma 5,1 milljón í gatnagerðargjöld. „Á móti byggingarrétti verður skuldajafnað stofnstyrk sem nemur 16.200.000 kr.,“ segir í bréfinu.
Á lóðunum sem FS hefur fengið úthlutað, nánar tiltekið við Vatnsstíg 12, stendur friðað hús. Samstarfssamningur milli Reykjavíkur og FS sem undirritaður var í lok síðasta mánaðar kveður á um að FS muni sjá um flutning hússins á Vatnsstíg 12 yfir á Vatnsstíg 10. Þar mun Félagsstofnun byggja nýjan kjallara sem gamla húsið verður flutt á. FS mun svo sjá um endurgerð hússins og byggingu viðbyggingar. Áður en að öllu þessu verður mun Reykjavíkurborg rífa núverandi hús á Vatnsstíg 10.