Þjóðhagsleg áhrif af stuðningi hins opinbera við kaup almennings á vistvænum bílum eru metin neikvæð um sem nemur tæpum 39 milljörðum króna í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands sem fjallar um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum. Af þeim aðgerðum sem Hagfræðistofnun leggur mat á skýrslu sinni ber engin jafn mikinn þjóðhagslegan kostnað og stuðningur ríkisins við kaup á vistvænum bílum.
Hagkvæmustu aðgerðirnar í aðgerðaáætluninni snúa að landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Núvirtur ábati af landgræðslu á árunum 2019 til 2030 er metinn rúmlega 58 milljarðar, tæplega 52 milljarðar af skógrækt og tæplega 40 milljarðar af endurheimt votlendis. Þar á eftir kemur rafvæðing hafna en núvirtur þjóðhagslegur sparnaður af rafvæðingu hafna á tímabilinu er metinn vera 32 milljarðar.
Skýrsla Hagfræðistofnunar nefnist einfaldlega Áhrif aðgerða í loftslagsmálum – Kostnaðar- og ábatamat. Í skýrslunni er mat lagt á kostnað og ábata af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynntar voru um mitt ár 2020. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda eru kynntar 48 aðgerðir en í skýrslunni er mat lagt á 23 þeirra. Ekki er lagt mat á 25 aðgerðir vegna þess að sumar þeirra eru enn í mótun eða í undirbúningi og áhrif annarra aðgerða sem ekki er lagt mat á eru óljós.
Losun minnkar um milljón tonn
Núvirtur ábati vegna niðurgreiðslu á vistvænum bílum á árabilinu 2019 til 2030 er metinn vera 176 milljarðar króna. Ábatinn er fólginn í minni losun kolefnis annars vegar og svo ábata kaupenda af stuðningi hins vegar. Aðgerðin er talin koma í veg fyrir útblástur um milljón tonna af kolvtísýringsígildum. Núvirtur kostnaður við aðgerðina er aftur á móti metinn vera 214 milljarðar króna og nettó áhrifin því neikvæð um sem nemur 39 milljörðum króna.
„Alltaf er hagkvæmt að taka kolefnisgjald af bensíni og dísilolíu á bíla, en það er ekki lagt á rafmagn, vetni og metan. Undanþágur frá öðrum gjöldum sem lögð eru á bensín- og dísilbíla orka fremur tvímælis. Undanþágurnar eiga aðeins að gilda í nokkur ár, en markmiðið með þeim er að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum,“ segir í inngangskafla skýrslunnar
Undanþágurnar megi rökstyðja með því að erfitt getur verið að taka upp nýja tækni á undan öðrum. „En raunar má segja að þetta séu fremur rök fyrir því að styðja við uppbyggingu innviða fyrir rafmagnsbíla en að niðurgreiða kaupverð þeirra eða rekstrarkostnað. Ekki er heldur augljóst að stjórnvöldum beri að styrkja innviðagerð. Margar nýjungar ná vinsældum án nokkurs stuðnings úr opinberum sjóðum.“
Muni ýta undir ójöfnuð fyrst um sinn
Í skýrslunni er einnig lagt mat á félagsleg áhrif aðgerðanna. Þar segir um niðurgreiðslu á kaupum á vistvænum bílum að þær flýti fyrir orkuskiptum í akstri enda hafi fleiri tök á því að kaupa rafbíla en ella.
„En þrátt fyrir niðurgreiðslur eru þeir enn dýrari en aðrir bílar í innkaupum. Á móti kemur að ódýrara er að reka rafbíl en bensín- eða dísilbíl. Líklegt er að fyrst um sinn ýti aðgerðirnar fremur undir ójöfnuð þar sem fólk með litlar tekjur á erfitt með að kaupa nýja rafbíla,“ segir í skýrslunni.
Talið er líklegt að fólk í neðsta tekjufjórðungi kjósi fremur notaða bíla en miðgildi ráðstöfunartekna fólks í þeim fjórðungi er um 5,5 milljónir á ári. Rafbílar eru aftur á móti flestir nýlegir og því er lítil reynsla af endursölu og kosta nýir frá fjórum milljónum og upp úr. Aftur á móti megi gera ráð fyrir „að eftir því sem fleiri rafbílar fari í endursölu jafnist aðstöðumunurinn og þeir verði hagkvæmari kostur fyrir fólk með lítil efni.“
Reikna með engum virðisaukaskatti til 2030
Í þeim kafla skýrslunnar sem snýr að stuðningi við kaup á vistvænum bílum segir að árið 2020 hafi 46 prósent nýskráðra bíla gengið fyrir rafmagni að fullu eða nokkur leyti en inni í þeirri tölu eru ekki tvinnbílar sem ekki er hægt að setja í samband við rafmagn. Þetta hlutfall var komið upp í 58 prósent árið 2021. Gert er ráð fyrir því að rafmagnsbílar leysi bensín- og dísilbíla að fullu af hólmi og að hlutfall nýskráninga hækki línulega upp í 100 prósent árið 2030 en þá verða nýskráningar bensín- og dísilbíla bönnuð. Í spánni er gert ráð fyrir að rafbílar verði helmingur af bílaflotanum árið 2030.
Í útreikningum Hagfræðistofnunar er reiknað með því að heimahleðslustöð verði keypt með öðrum hverjum rafbíl fram á árið 2022. Þá er gert ráð fyrir að fjöldi hleðslustöðva við vinnustaði, heimili og fjölbýli verði orðinn svo mikill að aðeins þurfi að kaupa hleðslustöð með einum af hverjum þremur nýjum rafbílum.
Í útreikningunum er einnig gert ráð fyrir að afsláttur af virðisaukaskatti verði í gildi á þeim tíma sem matið nær yfir, til ársins 2030. Afslátturinn er bæði bundinn við ákveðinn hámarksfjölda seldra bíla og við ákveðið tímabil. Eins og sakir standa er heimilt að fella niður virðisaukaskatt af rafbílum til loka ársins 2023 og er fjöldatakmörkun miðuð við 20 þúsund bíla. Útreikningar Hagfræðistofnunar miðað við að hámarksafsláttur virðisaukaskatts sé 1.1150 þúsund krónur en þetta hámark var hækkað upp í 1.320 þúsund krónur á síðasta þingi.