Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 30,7 prósent í nýjustu könnun MMR og hefur aldrei verið minni en nú. Fram að þessu var minnsti stuðningur við ríkisstjórnina 33 prósent í nóvember síðastliðnum. Í síðustu könnun MMR, frá því í byrjun apríl, mældist ríkisstjórnin með 35,3 prósenta fylgi. Í byrjun kjörtímabilsins mældist ríkisstjórnin með tæplega 60 prósenta fylgi.
Þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fór frá völdum mældist hún með meira fylgi en núverandi ríkisstjórn gerir, eða 31,5 prósenta fylgi. Fylgi þeirrar ríkisstjórnar fór þó á tímabili lægra en hjá núverandi ríkisstjórn. Minnst var ánægjan með störf þeirrar ríkisstjórnar í október 2010, 22,5 prósent. Þá voru Icesave-deilurnar í algleymingi á Íslandi.
Í könnunum MMR á fylgi stjórnmálaflokka er spurt hvort viðkomandi styðji ríkisstjórnina. 83,6 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar, en hafa verður í huga að vikmörk í könnunum sem þessum geta verið allt að 3,1 prósent.
Mælast úr takti við almenning og fáir telja þá heiðarlega
Þetta er önnur könnunin frá MMR sem birt er á skömmum tíma sem kemur illa út fyrir stjórnarflokkanna og forystumenn hennar. Í síðustu viku birtist könnun þar sem spurt var út í ýmsa persónueiginleika stjórnmálaleiðtoga. Þar kom meðal annars fram að fimm prósent aðspurðra telja að forystumenn ríkisstjórnarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, séu í tengslum við almenning.
Aðeins níu prósent aðspurðra telja Sigmund Davíð vera heiðarlegan, og tíu prósent telja Bjarna heiðarlegan. Þá segja átta prósent að Bjarni standi vörð um hagsmuni almennings, og 11 prósent telja að Sigmundur Davíð geri það. Fimm prósent telja að Sigmundur virði skoðanir annarra og átta prósent telja að það geri Bjarni.
Helmingur aðspurðra sagði að Sigmundur Davíð væri ekki gæddur neinum þeim persónueiginleikum sem spurt var um. 40 prósent sögðu það sama um Bjarna.
Einum af hverjum fimm þykir Bjarni Benediktsson vera gæddur persónutöfrum, en fimm prósent segja það sama um Sigmund Davíð. Sigmundur mælist hærri en Bjarni þegar kemur að því hvort fólk telji þá standa við eigin sannfæringu – 21 prósent telja það gilda um Sigmund og 19 prósent um Bjarna.
18 prósent telja Bjarna vera sterkan og ellefu prósent Sigmund. Þá telja þrettán prósent að Bjarni sé fæddur leiðtogi en fimm prósent telja að forsætisráðherrann sé fæddur leiðtogi. 27 prósent sögðu Bjarna vera ákveðinn, 15 prósent telja hann vinna vel undir álagi og 16 prósent segja hann skila árangri. Rétt rúmlega fimmtungur (22 prósent) segja Sigmund vera ákveðinn, átta prósent að hann vinni vel undir álagi og 15 prósent telja hann skila árangri.