Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist 53,6 prósent í nýrri könnun MMR sem er tæplega prósentustigi meira en í könnun fyrirtækisins sem var gerð í lok október og en 0,7 prósentustigum minna en flokkarnir þrír fengu í kosningunum í september.
Á milli mánaða lækkar fylgi Framsóknarflokks úr 19,2 í 17,5 prósent en er samt rétt yfir því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum, þar sem hann vann kosningasigur.
Vinstri græn bæta við sig 2,4 prósentustigum milli mánaða og alls 13,9 prósent segjast nú styðja flokkinn, sem er 1,3 prósentustigi meira en í kosningunum í september.
Eini stjórnarflokkurinn sem mælist með minna fylgi nú en hann fékk upp úr kjörkössunum er Sjálfstæðisflokkurinn, en 22,2 prósent segja að þeir myndu kjósa hann nú, sem er 2,4 prósentustigum minna en gerðu það í síðustu kosningum. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem fylgi flokksins mælist nánast það sama.
Stjórnarandstaðan ekki að hressast mikið
Sameiginlegt fylgi stjórnarandstöðuflokkanna á þingi mælist 41,9 prósent. Stærstir mælast Píratar með 12,4 prósent fylgi, sem er 3,8 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum og aðeins meira en hann mældist með í lok október.
Samfylkingin hressist aðeins á milli kannana og er með 11,1 prósent fylgi, sem er um 1,2 prósentustigi meira en hún fékk í kosningunum í september.
Viðreisn virðist nokkuð stöðug í kjörfylgi, sem var 8,3 prósent. Í síðustu tveimur könnunum MMR hefur fylgi flokksins mælst nákvæmlega átta prósent.
Tveir stjórnarandstöðuflokkar á þingi mælast nú með mælanlega minna fylgi en þeir fengu í september. Alls segjast 4,2 prósent styðja Miðflokkinn, sem fékk 5,4 prósent í síðustu kosningum, og 6,2 prósent styðja Flokk fólksins, sem fékk 8,8 prósent í kosningunum í september.
Sósíalistaflokkur Íslands, sem fékk 4,1 prósent atkvæða í kosningunum og náði ekki inn manni, mælist nú með 3,7 prósent fylgi og 0,8 prósent kjósenda myndu kjósa eitthvað annað en ofangreinda níu flokka ef kosið yrði í dag.
Könnunin var framkvæmd 10. - 15. nóvember 2021 og var heildarfjöldi svarenda 918 einstaklingar, 18 ára og eldri.