Útgáfufélagið Stundin, sem gefur út áskriftarblaðið Stundina og heldur úti samnefndum vef, hagnaðist um 7,2 milljónir króna í fyrra. Það er umtalsverður viðsnúningur á rekstri þess milli ára en félagið tapaði 12,9 milljónum króna árið 2019. Tekjur Stundarinnar jukust um 38,8 milljónir króna á milli ára og voru í heild 224,7 milljónir króna.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi Stundarinnar, sem skilað var inn til ársreikningaskrár 1. ágúst síðastliðinn, kemur fram að þann fyrirvara verði að setja við ársreikninginn að ríkisstyrkir til einkarekinna fjölmiðla, sem höfðu verið boðaðir fyrir árið 2019 með frumvarpi og kynningu menntamálaráðherra, voru greiddir út árið 2020 en komu til vegna kostnaðar ársins 2019.
Faraldurinn þegar haft neikvæð áhrif á reksturinn
Í skýrslu stjórnar segir að vegna þessa birtast bókhaldslegar sveiflur í ársreikningum. „Sjálfbær rekstur er forsenda óháðs fjölmiðils. Helstu samkeppnisaðilar á fjölmiðlamarkaði hafa verið reknir með halla í áraraðir sem greiddur er upp af fjársterkum eigendum hverju sinni. Tæp 83% af tekjum Stundarinnar koma hins vegar beint frá almenningi í gegnum áskriftakaup, styrki eða lausasölu. Stundin stefnir á að viðhalda sérstöðu sinni sem óháður og sjálfstæður fréttamiðill.“
Í skýrslunni segir enn fremur að COVID-19 faraldurinn hafi haft neikvæð áhrif á rekstur félagsins, þar sem almennur samdráttur í hagkerfinu hafi valdið niðurskurði í einkaútgjöldum með þeim líklegu afleiðingum að áskrifendum fækki, en áskriftartekjur eru megintekjustofn félagsins. „Félagið naut ríkisstyrks á árinu 2020 sem vóg upp á móti tapi sem félagið hefði annars skilað á árinu. Félagið hefur sótt um ríkisstyrk árið 2021 vegna rekstrar árið 2020, en áfram ríkir óvissa um endanlega upphæð þegar kemur að félaginu.“
Í frekari skýringum á þessu í ársreikningnum segir að stjórn Útgáfufélags Stundarinnar fylgist sérstaklega með áhrifum COVID-19 á afkomu og stöðu félagsins. „Faraldurinn hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á rekstur félagsins eins og fram kemur í skýrslu stjórnar og ríkir óvissa um forsendur rekstrarins. Félagið hefur sótt um rekstrarstuðning fyrir einkarekin fjölmiðlafyrirtæki og taka áætlanir stjórnenda mið að því að félagið verði áfram rekstrarhæft.“
Alls voru tíu stöðugildi hjá Stundinni í fyrra. Hluthafar í félaginu voru 15 talsins og enginn einn á meira en 12,2 prósent eignarhlut.