Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti á lánum bankans um 0,25 prósentustig. Með því verða stýrivextir bankans komnir upp í 1,5 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu nefndarinnarsem birt var á vef bankans í morgun.
Útlit fyrir kröftugan efnahagsbata
Samkvæmt tilkynningunni sýna bráðabirgðatölur að hagvöxtur á fyrri hluta þessa árs hafi verið nokkuð minni en bankinn spáði í ágúst. Hins vegar séu vísbendingar um að efnahagsbati hafi verið kröftugur á nýliðnum ársfjórðungi og að hagvaxtarhorfur fyrir árið í heild hafi lítið breyst.
Verðbólga eykst enn
Nefndin nefnir einnig að verðbólga hafi haldið áfram að aukast, en hún mældist 4,4 prósent í september. Hröð hækkun húsnæðisverðs útskýrir stóran hluta af verðbólgunni, en samkvæmt yfirlýsingu peningastefnunefndar hefur undirliggjandi verðbólga haldið áfram að hjaðna. Áhrif tímabundinna framboðstruflana, sem hafa hækkað kostnað við að framleiða og dreifa vörur um allan heim, gætu aftur á móti varað lengur en áður var talið að mati nefndarinnar.
„Þótt undirliggjandi verðbólga fari minnkandi er það áhyggjuefni að verðbólguvæntingar virðast hafa tekið að hækka á ný,“ segir í yfirlýsingunni. „Of snemmt er þó að segja til um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmið sé að veikjast.“ Nefndin bætir einnig við a hún muni beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið „innan ásættanlegs tíma“.