Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru í dag hækkaðir um 0,75 prósentustig í 5,5 prósent. Vextirnir hafa ekki verið svo háir síðan í ágúst 2016, eða í sex ár. Eftir nýjustu vaxtahækkunina hefur peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkað vexti um um 4,75 prósentustig síðan í maí í fyrra. Á þessu ári einu saman hafa vextirnir hækkað um 3,5 prósentustig, en þeir voru tvö prósent um síðustu áramót.
Ástæða þessa er mikil verðbólga, sem mælist 9,9 prósent um þessar mundir og búist er við að hún skríði upp í tveggja stafa tölu við næstu birtingu. Sú verðbólga hefur að mestu verið drifin áfram af hækkandi íbúðaverði.
Búast má við því að lánveitendur hækki vexti íbúðalána í kjölfarið og að greiðslubyrði heimila aukist samhliða umtalsvert.
Versnandi verðbólguhorfur og aðvörun til vinnumarkaðarins
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að samkvæmt uppfærðri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála eru horfur á tæplega sex prósent hagvexti í ár sem er 1,3 prósentum meiri vöxtur en spáð var í maí. „Stafar það einkum af þróttmeiri einkaneyslu og hraðari bata í ferðaþjónustu. Störfum heldur áfram að fjölga og atvinnuleysi að minnka og meiri spenna hefur myndast í þjóðarbúinu en áætlað var í maí.“
Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. „Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.“
Skýr merki um að markaðurinn sé að kólna
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 15,5 prósent síðustu sex mánuði og 25,5 prósent síðasta árið. Ef horft er aftur til upphafs kórónuveirufaraldursins, sem hófst af alvöru hérlendis í mars 2020, þá hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 48 prósent.
Á landinu öllu hækkaði íbúðaverð um 26,4 prósent frá júní í fyrra og til loka sama mánaðar í ár. Verðið hækkaði meira í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landsbyggðinni en í höfuðborginni sjálfri og sveitarfélögunum sem liggja að henni.
Skýr merki eru þó um að húsnæðismarkaðurinn sé að kólna. Líkt og Kjarninn greindi frá því gær þá hefur verulega hægt á hækkunum á markaðnum – hækkun á verði var 1,1 prósent milli síðustu mánaða og hefur ekki verið minni um langa hríð – ásamt því að framboð íbúða er að aukast. Ef horft er á sex mánaða hlaupandi meðaltal þá hafa kaupsamningar ekki verið færri frá því í apríl 2015.
Þetta bendir til þess að skarpar stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands, ásamt takmörkunum sem hann hefur sett á útlán, hafi verið að bíta. Hærri stýrivextir gera það enda að verkum að hámarkslánsfjárhæð sem heimilin geta tekið til að kaupa sér húsnæði minnkar.
Í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um húsnæðismarkaðinn sem birt var í gær var bent á að á meðan að stýrivextir hækkuðu tvö prósentustig frá því í maí á þessu ári og þangað til í gær hafi verðbólgan vaxið um fimm prósentustig á sama tíma. Því hafa stýrivextir lækkað að raunvirði. Í umfjöllun HMS segir að stýrivextir hafi nú verið lægri en verðbólga allt frá því í apríl 2020. „Aldrei áður hafa þeir verið undir verðbólgu í svo langan tíma.“