Sænski seðlabankinn, Riksbanken, hækkaði í morgun stýrivexti um 1 prósentustig. Vextirnir eru nú 1,75 prósent. Þetta er skarpasta hækkun stýrivaxta í landinu í tæplega þrjátíu ár. Frekari hækkana er að vænta á næstunni.
Í tilkynningu frá bankanum í morgun sagði að aðgerðirnar væru nauðsynlegar til að ná verðbólgunni niður. Hún hafi hækkað ört undanfarið, bæði innan Svíþjóðar sem og víða annars staðar í heiminum.
Sænski seðlabankinn hækkaði síðast stýrivexti sína í júní. Sú hækkun nam 0,50 prósentustigum og var hún sú mesta í 22 ár. Hækkunin í dag er sú mesta frá árinu 1993 er verðbólgumarkmið voru sett í fyrsta sinn.
Samkvæmt spám bankans þarf að halda áfram að hækka vextina næstu sex mánuði til að ná markmiðum. Sérfræðingar sem sænska ríkisútvarpið ræðir við spá því að stýrivextirnir verði komnir i 3,5 prósent næsta sumar.
Ákvörðun seðlabankans hefur komið sérfræðingum á óvart. Í frétt Dagens Nyheter segir að níu manna sérfræðingaráð blaðsins hafi búist við 0,5 prósent hækkun vaxta.
Í frétt blaðsins eru raktar helstu skýringar á aukinni verðbólgu. Bent er á ójafnvægi í efnahagslífinu sem myndaðist í kjölfar heimsfaraldursins. Eftirspurn eftir vörum jókst hratt en tafir voru á framleiðsluhliðinni.
Þá hafi innrás Rússa í Úkraínu og stríðið sem þar hefur geisað frá því í febrúar haft þær afleiðingar að vörur hafa hækkað enn meira í Evrópu en þær hefðu annars gert. Það skýrist aftur mest af hækkun orkuverðs.