Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla, var samþykkt á Alþingi í dag. Alls greiddu 34 þingmenn atkvæði með frumvarpinu, en ellefu á móti og tólf þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Þeir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu voru allir þingmenn Miðflokksins auk Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokks og Guðmundar Inga Kristinssonar úr Flokki fólksins. Þrír stjórnarliðar, allir úr Sjálfstæðisflokki, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Þeir eru Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason. Þingmenn Samfylkingar voru einu stjórnarandstæðingarinnar sem studdu frumvarpið og gerðu það ásamt öllum viðstöddum þingmönnum Vinstri grænna og Framsóknarflokks og ellefu þingmönnum Sjálfstæðisflokks.
Í frumvarpinu felst að 400 milljónum króna verður skipt á milli þeirra einkareknu fjölmiðla sem uppfylla skilyrði fyrir styrkjagreiðslunni.
Styrkjakerfið verður við lýði út næsta ár og fjölmiðlar verða að sækja um styrki fyrir 1. ágúst næstkomandi.
Frumvarpið byggir á nefndaráliti meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem var birt fyrr í þessum mánuði.
Samkvæmt álitinu gerði meirihlutinn nokkrar breytingar á frumvarpinu. Þar ber hæst að sett verði þrengri skilyrði um til að teljast stuðningshæfur fjölmiðill.
Sú þrenging felur í annars vegar í sér að lágmarksútgáfutíðni prentmiðils þar að vera að minnsta kosti 20 útgáfur á ári og aðrir miðlar sem hljóti styrk þurfi að „miðla nýjum fréttum, fréttatengdu efni eða umfjöllun um samfélagsleg málefni á virkum dögum í 20 vikur á ári.“
Í frumvarpinu sem Lilja lagði upphaflega fram í desember stóð að launa- og verktakakostnaður allra sem öfluðu og miðluðu efni væri stuðningshæfur. Meirihlutinn hefur lagt til að þessi skilyrði verði þrengd verulega og að þeir miðlar einir verði stuðningshæfir sem afli og miðli „fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.“
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði frumvarpsins um styrkjagreiðslu.