Stytting vinnuvikunnar hjá ríkisstarfsmönnum, sem felur í sér breytingu á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu og tók gildi 1. maí síðastliðinn, kostar 5,4 milljarða króna á ársgrundvelli. Í ár er áætlað að kostnaðurinn frá 1. maí og út árið 2021 verði 3,6 milljarðar króna.
Alls fara 900 milljónir króna úr ríkissjóði til lögregluembætta og Fangelsismálastofnunar á ársgrundvelli til að brúa þann viðbótarkostnað sem ekki var búið að reikna með vegna styttingu vinnuvikunnar hjá þeim stofnunum.
Um tveir milljarðar króna fara til Landspítalans af sömu ástæðu og 1,2 milljarðar króna til hjúkrunarheimila. „Af þeim 1,3 ma.kr. sem eftir standa rennur mest til annarra stofnana heilbrigðisráðuneytisins, en einnig er gert ráð fyrir minni hækkun hjá nokkrum öðrum ráðuneytum, t.d. hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti vegna tollvarða og félagsmálaráðuneyti vegna Barnaverndarstofu.“
Ráða þarf miklu fleira fólk
Áætlað er að vaktavinnufólk sé um þriðjungur ríkisstarfsmanna í um fjórðungi stöðugilda, það er um 7.300 starfsmenn í 5.500 stöðugildum. Helstu breytingarnar eru að vinnuvika vaktavinnufólks, í fullu starfi, styttist úr 40 klukkustundum í 36. Með styttingu vinnutíma vaktavinnufólks myndast mönnunargat sem kallar á fleiri stöðugildi ef halda á uppi sömu þjónustu og verið hefur.
Mikil gagnrýni spratt upp á síðustu vikum, eftir að stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki tók gildi hjá ríkisstarfsmönnum 1. maí síðastliðinn. Stjórn Landssambands lögreglumanna sendi til að mynda frá sér ályktun þar sem sambandið lýsti yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem lögreglan stæði frammi fyrir eftir innleiðinguna. Að mati sambandsins væru of fáir lögreglumenn við störf og hlutfall lærðra lögreglumanna orðið „hættulega“ lágt. Ráða þyrfti fleira fólk.
Sama var uppi á teningnum hjá Landspítalanum, þar var áætlað að ráð þyrfti um 200 manns til viðbótar við þá sem þegar störfuðu þar til að mæta þeim breytingum sem fylgdu styttingu vinnuvikunnar.
Síðan hefur verið brugðist við með vilyrðum um meira fjármagn til þeirra stofnana sem á þurfa að halda. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar segir að verkefnið sé „að fullu fjármagnað með því að nýta almenna varasjóðinn í fjárlögum ársins þar sem umfang hans nemur í heild rúmum 20 ma.kr. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun millifæra fjárveitingar til einstakra stofnana vegna þessa verkefnis.“
Meirihlutann mynda þingmenn stjórnarflokkanna þriggja.