Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að ráðist verði í að kynna svokallaða skipulagslýsingu sem varðar umhverfi Suðurlandsbrautar og efsta hluta Laugavegar í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á götunum og nágrenna þeirra í tengslum við fyrsta áfanga Borgarlínu. Fulltrúar meirihlutans í borgarráði kalla þetta mikilvægan áfanga.
Skipulagslýsingin er undanfari vinnslu deiliskipulags, en með því að kynna skipulagslýsinguna er umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar sem að gagni gætu komið við mótun tillögu að deiliskipulagi. Samkvæmt tímaáætlun sem sett er fram í skipulagslýsingunni er gert ráð fyrir því að ný deiliskipulagstillaga fyrir þetta svæði verði lögð fram í febrúar næstkomandi.
Sjálfstæðisflokkur margradda við meðferð málsins
Málið verður tekið fyrir í borgarstjórn áður en ráðist verður í formlega kynningu skipulagslýsingarinnar og má búast við því að þar verði deilt um málið, en allir þrír borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn kynningu skipulagslýsingarinnar í borgarráði í gær.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði áður verið klofinn í afstöðu sinni til málsins í skipulags- og samgönguráði, en þar greiddi Katrín Atladóttir borgarfulltrúi atkvæði með fulltrúum borgarstjórnarmeirihlutans gegn tveimur atkvæðum sjálfstæðismannanna Eyþórs Arnalds og Ólafs Kr. Guðmundssonar, sem lögðust gegn því að skipulagslýsingin yrði sett í kynningu.
Í bókun þeirra Eyþórs og Ólafs sagði að sú útfærsla sem væri boðuð í skipulagslýsingunni myndi þrengja að bílaumferð, en unnið er út frá því að akreinum fyrir bíla á Suðurlandsbraut verði fækkað eins og lagt er upp með í frumdrögum að fyrstu lotu Borgarlínu. Reyndar er í skipulagslýsingunni tekið fram að fyrir liggi að þessi tiltekna breyting sé „ekki óumdeild“ og að skýra þurfi „hvaða valkostir eru til staðar og sýna hvernig óbreytt umferðarrýmd fyrir bíla á götunni hefði áhrif á greiðfærni borgarlínunnar og gæði borgarumhverfisins við Laugardal.“
Í bókun Katrínar frá fundi skipulags- og samgönguráðs, sem fram fór 10. nóvember, var bent á að ekki væri búið að að útkljá fækkun akreina og gera mætti ráð fyrir að hægt yrði að „taka upplýsta afstöðu til þess á síðari stigum.“ Hún sagði einnig að ítarlegt samráð væri framundan og Sjálfstæðisflokkurinn hefði lagt mikla áherslu á gott samráð.
„Borgarlínan er ekki hafin yfir gagnrýni og það verður mikilvægt fyrir íbúa og hagaðila að fá tækifæri til að gera athugasemdir bæði nú og þegar deiliskipulagstillagan verður kynnt í febrúar á næsta ári. Þar sem eingöngu er um að ræða lýsingu á ferli framundan, verið að bjóða upp á aukið samráð, og ég tel rétt að vinna áfram að framgangi Samgöngusáttmála sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur samþykkt í sveitarfélögunum í kringum okkur og í ríkisstjórn, þá sé ég enga ástæðu til annars en að samþykkja skipulagslýsinguna,“ bókaði Katrín.
Bjóði upp á „óþarfa menningarstríð í samgöngumálum“
Í borgarráði lagðist Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi gegn því að skipulagslýsingin færi í kynningu, en þó á öðrum forsendum en þau Eyþór Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir, sem lögðu mesta áherslu á það í bókun sinni á fundinum í gær að verið væri að þrengja að bílaumferðinni á Suðurlandsbraut með fækkun akreina.
Hildur gerði aðallega athugasemdir við tímasetningu kynningar skipulagslýsingar, en sagði raunar einnig að breytingar á Suðurlandsbrautinni myndu „fyrirséð vekja úlfúð meðal fjölda borgarbúa“ og að þær væru ekki til þess fallnar að „fjölga fylgismönnum borgarlínu.“
„Þvert á móti ýta þær undir óþarfa menningarstríð í samgöngumálum. Fulltrúinn telur mikilvægt að vinna að samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins í góðri sátt við fólk og fyrirtæki. Tímasetning skipulagslýsingar er hins vegar ekki til þess fallin að skapa slíka sátt enda fyrirséð að breytingarnar munu ýta undir neikvæða umræðu um Borgarlínu,“ segir í bókun Hildar, sem segist ekki fá séð að skipulagslýsing þurfi að liggja fyrir svona snemma í ferlinu.
Að hennar mati færi betur á því að kynna lýsinguna „þegar vinna við einkaframkvæmd Sundabrautar er hafin og fyrirhugaðar stokkalausnir samgöngusáttmála eru langt á veg komnar.“
Lykilkafli Borgarlínunnar, segir meirihlutinn
Í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um málið segir að vegarkaflinn sem er undir í þessari skipulagslýsingu, frá Steinahlíð og alla leið að Katrínartúni, gegni „lykilhlutverki í því að borgarlínan í heild sinni verði hágæða BRT-kerfi“ og að mikilvægt sé að leggja ríka áherslu á þau gæðaviðmið í deiliskipulagsvinnunni sem er framundan.
„Við leggjum mikla áherslu á að borgarlínan eigi að njóta forgangs þegar kemur að plássnotkun, í borgarrými og við gatnamót. Um leið og þessum mikilvæga áfanga er fagnað er því starfsfólki sem unnið hefur að þessu stóra verkefni þakkað,“ segir í bókun meirihlutans í borgarráði.
Verður kynnt fyrir fasteignaeigendum við Suðurlandsbraut
Í skipulagslýsingunni kemur fram að umsagna um lýsinguna skuli leita víða, eða hjá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni Reykjavíkur, Vegagerðinni, OR/Veitum, Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, framkvæmdanefnd vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu, Strætó bs., Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hinum ýmsu deildum og sviðum Reykjavíkurborgar.
Einnig er tekið fram kynna skuli skipulagslýsinguna fyrir lóðarhöfum og eigendum fasteigna við Suðurlandsbraut, íbúaráði Háleitis- og Bústaðahverfis, íbúaráði Laugardals, íbúaráði Hlíðahverfis og íþróttasamböndum og -félögum með aðstöðu í Laugardal: sérsamböndum ÍSÍ með aðstöðu í Laugardal, Þrótti, Ármanni og TBR – auk þess sem skipulagslýsingin skuli kynnt almenningi.