Sue Ann Arnall, fyrrverandi eiginkona Harold Hamm, forstjóra olíuvinnslufyrirtækisins Continental Resources, hefur fengið 974,8 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 127 milljarða króna, greidda inn á bankareikning sinn frá Hamm vegna skilnaðar þeirra.
Sue Ann hafði áður neitað að taka við peningunum, en Michael Burrage, lögmaður Sue Ann, staðfesti það við CNBC, að peningarnir hefðu verið greiddir inn á reikning hennar í morgun.
Ekki er ljóst ennþá hvort þessi greiðsla frá Hamm verður til þess að ljúka deilum þeirra fyrrverandi hjóna. Hamm er með auðugustu mönnum heims, en verðmæti hans eru metin á meira en tíu milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 1.300 milljörðum króna. Eignir hans eru að stóru leyti bundnar í hlutabréfum í Continental Resources.