Sumarbúðir ungliðahreyfingar norska jafnaðarmannaflokksins í Útey verða haldnar á ný um komandi helgi. Það er í fyrsta sinn sem slík ferð er farin síðan Anders Behring Breivik myrti 69 manns, flesta á táningsaldri, í eyjunni 22. júlí 2011.
Ole Martin Juul Slyngstadli er einn þeirra sem komust lífs af úr Útey árið 2011. Hann segir mikilvægt að eyjan verði aftur þeirra. „Fyrir mér er mikilvægt að við eignumst eyjuna aftur,“ sagði hann í samtali við AFP-fréttastofuna en hann er nú orðinn 22 ára.
Slyngstadli bjargaði lífi konu sem hafði verið skotin þrisvar og missti tvo af sínum bestu vinum. „Það hefur áhrif á mann,“ segir hann. „Ég var mjög virkur í stjórnmálastarfinu fyrir árásirnar en nú brenn ég fyrir málstaðinn sem aldrei fyrr.“
600 manns voru í Útey fyrir fjórum árum en nú ætla meira en þúsund manns að mæta, meðal þeirra einhverjir sem komust undan árás Breivik. Nú hafa búðirnar í eynni verið endurbyggðar og undirbúnar undir komu ungmennanna. Slingstadli er meðal hundrað sjálfboðaliða sem hjálpað hafa til en hefur sjálfur komið nokkrum sinnum í Útey eftir árásirnar. „Það eru margar tilfinningar tengdar þessum stað en ég reyni að knýja fram þær jákvæðu,“ segir hann.
Þegar árásin var gerð bjargaði hann lífi Inu Libak sem hafði orðið fyrir skotum Breiviks. Slyngstadli bar hana inn í þykkan gróður eyjunnar og hlúði að henni ásamt öðrum þar til þeim var bjargað og siglt í skjól. Libak var þungt haldin en hefur náð heilsu, hann eðlilega í áfalli. „Ég hef aldrei séð nokkurn mann hlaupa jafn hratt og vera jafn sterkan,“ sagði Libak um bjargvætt sinn í vitnaleiðslum við réttarhöldin yfir Breivik.
Síðastliðin fjögur ár hefur fjöldi meðlima í ungliðahreyfingu jafnaðarmanna í Noregi aukist um 50 prósent. Ungliðahreyfingin heldur áfram að berjast fyrir jafnrétti og fjölmenningu í Noregi, það sem Breivik segist hafa sem ástæðu fyrir árásinni.