Væntingar standa til að niðurstaða fjölþættrar vinnu á vegum matvælaráðuneytisins „verði góður grunnur fyrir komandi heildarendurskoðun á regluverki, umgjörð, gjaldtöku og framkvæmd í fiskeldi“ líkt og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Um þetta er ítarlega fjallað í minnisblaði sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag og Kjarninn fékk afhent.
Vinnan sem ráðuneyti Svandísar hefur hleypt af stokkunum felst m.a. í ítarlegri úttekt ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group á stöðu lagareldis á Íslandi en lagareldi er yfirheiti yfir sjókvía-, land-, þörunga- og úthafseldi. Í skýrslunni, sem væntanleg er í lok mánaðarins, verður lagt mat á áskoranir og tækifæri í eldinu auk þess sem fjallað verður um mótvægisaðgerðir vegna umhverfisþátta.
Þá vinnur Ríkisendurskoðun vinnur að úttekt á stjórnsýslu málaflokksins í ráðuneytinu og undirstofnunum þess en niðurstöður þeirrar vinnu munu væntanlega einnig liggja fyrir undir lok október.
Jafnframt er starfshópur um smitvarnir og sjúkdóma í fiskeldi að störfum og gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki undir lok árs.
Starfshópur vegna stroks
Í fjórða og síðasta lagi mun matvælaráðherra skipa starfshóps vegna frétta um strok á eldislaxi í Arnarfirði. Í hópnum verða fulltrúar ráðuneytisins, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun. Hlutverk hópsins verður að fara yfir þær reglur sem um málefnið gilda hérlendis, skoða þá ferla og framkvæmd sem eru til staðar og gera tillögur að útbótum.
Í minnisblaði Svandísar er minnt á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segi að móta eigi heildstæða stefnu um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu skuli leggja áherslu á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna.
Ráðherrann fer svo í minnisblaðinu yfir stöðu málaflokksins í Noregi og Færeyjum en þar hafa verið kynntar tillögur um breytingar á gjaldtöku í fiskeldi.
Nýr auðlindarentuskattur í Noregi
Á dögunum kom ríkisstjórn Noregs með tillögur um nýjan auðlindaskatt í sjókvíaeldi, vindorku á landi og vatnsafli. Frumvarp til fjárlaga í Noregi var kynnt í síðustu viku en ástæða fyrir kynningunni á tillögunum um breytingar á auðlindarentuskattinum áður en frumvarpið var tilkynnt hefur verið óljós í norskum fjölmiðlum. Hefur því m.a. verið slegið fram að upplýsingar hafi lekið og því hafi verið nauðsynlegt að koma út viðkvæmum upplýsingum sem gætu haft áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Tilkynning stjórnvalda var með yfirskriftinni: „Sanngjarnari skipting hagnaðar vegna nýtingar náttúruauðlinda“.
Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
Auðlindarentuskattur upp á 40 prósent, sem er 62 prósent jaðarskattur ef tekið er tekið er tillit til 22 prósenta tekjuskatts. Þar sem tekjuskattur er reiknaður fyrst er auðlindarentuskatturinn í raun 51,3 prósent, er bent á í minnisblaðinu.
Þar segir ennfremur að auðlindaskatturinn sé í raun áætlaður viðbótartekjuskattur þar sem skattaandlagið (auðlindarentan) er áætluð stærð. Virðisauki í vinnslu er undanskilinn. Notast er við heimsmarkaðsverð á laxi þegar tekjur eru ætlaðar og fjármagnskostnaðurinn undanskilinn. „Auðlindaskatturinn er því ekki hreinn meðaltalsskattur eins og útreikningur veiðigjalda er hér á landi, eða framleiðslugjaldið í sjókvíaeldi sem er magnbundinn veltuskattur,“ stendur í minnisblaði ráðherra.
Litlu fyrirtækin greiða minna
Gert er ráð fyrir að draga megi frá hagnaði sem samsvarar 4-5 þúsund tonna framleiðslu áður en kemur að skattlagningu en það þýðir að þau fyrirtæki sem eru með framleiðslu undir 5 þúsund tonnum eru að mestu undanþegin skattinum. Í máli fjármálaráðherra Noregs kom fram að 70 prósent af öllum fyrirtækjunum í sjókvíaeldi yrðu þar með undanþegin skattinum. 2/3 af áætluðum auðlindaskatti muni lenda á fimm stærstu fyrirtækjunum og lagði fjármálaráðherrann mikla áherslu á að stóru fyrirtækin þurfi að koma með meira framlag við að nýta sameiginleg hafsvæði norsku þjóðarinnar.
Tillagan gerir ráð fyrir að skila sem svarar um 50 milljörðum ISK árlega í ríkissjóð, en þeirri fjárhæð verður deilt jafnt á milli ríkis og sveitarfélaga/fylkja.
Ofangreind tillaga er ekki ný af nálinni í Noregi. Árið 2019 kom út skýrsla nefndar fjármálaráðuneytisins þar sem að meirihluti nefndarmanna lagði til að settur yrði 40 prósent auðlindarentuskattur. Sú tillaga hlaut ekki brautargengi hjá þáverandi ríkisstjórn og var þess í staðinn sett á framleiðslugjald upp á 0,40 norskar krónu á hvert tonn, um 5-6 íslenskar krónur á hvert kíló.
„Til samanburðar má reikna með að framleiðslugjaldið á Íslandi verði um 45-55 kr. per. kg. þegar sólarlagsákvæði rennur út 2026 að teknu tilliti til breytinga sem kynntar hafa verið í tekjubandormi fjárlaga,“ segir í minnisblaði Svandísar.
Breytingar á framleiðslugjaldi í Færeyjum
Framleiðslugjaldið (veltuskattur) í sjókvíaeldi á Íslandi er byggt á aðferðafræði við útreikning sem nú er í gildi í Færeyjum, þ.e. þrjú mismunandi gjaldhlutföll þar sem gjaldstofninn er heimsmarkaðsverð á laxi.
Nýverið tilkynntu færeysk stjórnvöld í drögum að fjárlögum um breytingar á gjaldinu. Meginbreytingarnar eru þær að gjaldhlutföllunum fjölgar úr þremur í fimm, viðmiðunarverð hækkar og tekið er tillit til framleiðslukostnaðar. Framleiðslukostnaður byggist á meðaltalskostnaði fyrirtækja í sjókvíaeldi og verður breytilegur milli ára. Reiknað er með að breytingin skili um 1,4 milljarði íslenskra króna og að framleiðslugjaldið skili í heild um 6,3 milljörðum ÍSK á næsta ári.
Fyrir hverjar 5 danskar krónur (um 95 íslenskar) sem heimsmarkaðsverð hækkar, hækkar hlutfallið um 2,5 prósent. Ef heimsmarkaðsverð er undir framleiðslukostnaði er gjaldið um 0,4 kr. á kíló. Gjaldið fer svo stigvaxandi eftir því sem meiri munur er á milli framleiðslukostnaðar og heimsmarkaðsverðs.