Sveitarfélög með undir eitt þúsund íbúa þurfa að taka það til alvarlegrar skoðunar að sameinast öðrum sveitarfélögum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í drögum að skýrslu verkefnastjórnar um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í morgun.
Sem stendur eru 29 þeirra 64 sveitarfélaga sem eru á Íslandi með íbúafjölda undir þeirri tölu. Til viðbótar eru tólf sveitarfélög til viðbótar með á milli eitt og tvö þúsund íbúa.
Í skýrslunni segir að verkefnastjórnin líti svo á að sameining sveitarfélag stuðli ekki einungis að öflugri sveitarfélögum sem veiti betri þjónustu við íbúa heldur líka að betri vinnuaðstæðum og minna álagi á kjörna fulltrúa. „Með hliðsjón af því hvetur verkefnastjórnin sérstaklega sveitarstjórnir með undir eitt þúsund íbúa til þess að skoða alvarlega sameiningarkosti við önnur sveitarfélög.“
Vilja „sanngjörn kjör“ fyrir sveitarstjórnarfulltrúa
Verkefnastjórnin var skipuð í fyrrahaust til að taka út starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Ástæðan var sú að endurnýjun í hópi sveitarstjórnarmanna hefur verið afar mikil hérlendis, og að afar hátt hlutfall gefi ekki kost á sér aftur til þátttöku í sveitarstjórnum eftir að hafa setið í þeim í eitt kjörtímabil. Formaður hópsins var Guðveig Eyglóardóttir sem skipuð var af innviðaráðuneytinu. Á meðal annarra sem sátu í henni eru Gauti Jóhannesson, fyrrverandi sveitarstjóri á Djúpavogi, og Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík og nýkjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Verkefnastjórnin segir að ríki og sveitarfélög verði að taka höndum saman um að bæta vinnuaðstæður, stuðla að markvissari vinnubrögðum, tryggja réttindi og sanngjarnari kjör kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum í því skyni að efla sveitarfélögin. „Með sama hætti er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að draga úr hættunni á hvers kyns áreiti og ofbeldi í garð kjörinna fulltrúa. Brýnt er að veita kjörnum fulltrúum aukna fræðslu til að takast á við sífellt flóknara hlutverk sem og stuðning og ráðgjöf til að takast á við neikvæða fylgifiska þess.“
Styrkja þarf hlut kvenna
Í drögunum kemur fram að það hafi vakið eftirtekt verkefnastjórnarinnar að hlutfall kvenna á Norðurlöndum í sveitarstjórnum sé hæst hérlendis, en hvergi sé hins vegar meiri endurnýjun meðal kjörinna fulltrúa heldur en á meðal kvenna í íslenskum sveitarstjórnum. „Sú staðreynd á væntanlega sinn þátt í því að konur eru ólíklegri en karlar til þess að gegna ábyrgðarstöðum innan sveitarstjórna. Ljóst er að bregðast þarf við óeðlilega háu endurnýjunarhlutfall í sveitarstjórnum með markvissu átakinu beggja stjórnsýslustiga til að tryggja áframhaldandi eflingu sveitarstjórnarstigsins og styrkja hlut kvenna innan sveitarstjórna.“
Kjör kjörinna fulltrúa eru einnig til umfjöllunar í drögunum, en Reykjavík er eina sveitarfélag landsins sem greiðir slíkum full laun. Innviðaráðuneytið er þar hvatt til þess að endurskoða kjaraákvæði sveitarstjórnarlaga í því skyni að stuðla að „sanngjörnum kjörum fulltrúa“, tryggja að þeir verði ekki fyrir launatapi og njóti eðlilegra réttinda á vinnumarkaði.
Í því skyni er meðal annars mælt með því að teknar verði upp svokallaðar barnagreiðslur að danskri fyrirmynd til kjörinna fulltrúa með börn undir tíu ára aldri á sínu framfæri, „meðal annars til að standa straum af barnagæslu og koma til móts við annað óhagræði foreldra ungra barna af fundum utan hefðbundins vinnutíma. Með því væri sérstaklega unnið gegn óeðlilega mikilli endurnýjun í sveitarstjórnum meðal ungra foreldra, sér í lagi kvenna.“
Á meðal annarra tillagna sem mælt er með eru að tryggt verði að kjörnir fulltrúar hafi aðgang að nauðsynlegum tækjabúnaði á borð við tölvu og síma eða þeim verði veittur styrkur til kaupa á slíkum tækjum. Jafnframt verði kjörnum fulltrúum tryggður aðgangur að hentugu húsnæði til að sinna skyldum sínum í þágu sveitarstjórnar og taka á móti íbúum með erindi til hennar.
Hætt við að lögþvinga sameiningar
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra lagði fram frumvarp á síðasta kjörtímabili sem fól meðal annars í sér að sveitarfélög með undir eitt þúsund íbúa yrði gert að sameinast öðrum.
Þegar frumvarpið var samþykkt í fyrrasumar hafði því hins vegar verið breytt á þann hátt að nú segir í því að stefnt skuli að því að lágmarksíbúafjöldi verði undir eitt þúsund, en að sveitarfélög yrðu ekki þvinguð til að gera það. Áfram sem áður er það því í höndum sveitarfélaganna sjálfra að ákveða hvort þau hafi styrk til að sinna lögbundinni grunnþjónustu.
Í greinargerð frumvarpsins var meðal annars fjallað um hagræn áhrif fækkunar sveitarfélaga. Samkvæmt greiningu er áætlað að hagræn áhrif kunni að verða 3,6 til fimm milljarðar króna. vegna breyttra áherslna við rekstur sveitarfélaga. Í tilkynningu sem birt var á vef stjórnarráðsins vegna þessa sagði að með sameiningu gæti orðið til mögulegur sparnaður í rekstri stjórnsýslu sveitarfélaga sem gæti nýst til að auka þjónustustig við íbúa sveitarfélaga.