Verðbólga hér á landi á síðustu mánuðum hefur verið jafnmikil og meðalverðbólgan hjá OECD-ríkjum og töluvert minni en í Bandaríkjunum. Sömuleiðis hefur húsnæðisverð hækkað minna hérlendis að raunvirði heldur en í Bandaríkjunum, Noregi og í öðrum OECD-ríkjum. Þetta kemur fram þegar hagtölur frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og Evrópusambandinu eru skoðaðar.
Nálægt meðaltali OECD
Í byrjun árs var verðbólgan hér á landi hærri en í langflestum Evrópulöndum og hafði hún hækkað hraðast af öllum þeirra eftir að faraldurinn skall á. Síðan þá hefur hún hins vegar haldist nokkuð stöðug hérlendis, á meðan verð á neysluvörum hefur hækkað hratt í nágrannalöndunum.
Eins og sést á mynd hér að neðan er verðbólgan nú svipuð og meðalverðbólga OECD-ríkja, í fyrsta skipti frá byrjun síðasta árs. Í síðasta mánuði nam árshækkun neysluverðsvísitölunnar 4,4 prósentum á Íslandi, sem er meiri en 4,1 prósenta verðbólgan í Noregi á sama tíma en þó töluvert minni en 5,4 prósenta verðbólgan í Bandaríkjunum.
Ísland kemur enn betur út ef tekið er tillit til þess að aðferðir til að mæla verðbólgu eru mismunandi á milli landa. Ef svokölluð samræmd neysluverðsvísitala, sem tekur ekki tillit til breytinga á verði eigin húsnæðis, er notuð, mældist verðbólgan hér á landi 3,7 prósent í ágúst, í stað 4,3 prósenta. Á sama tíma nam meðalverðbólgan í aðildarríkjum OECD 4,3 prósentum.
Ekkert frábrugðið við húsnæðismarkaðinn
Svipað er uppi á teningnum þegar hækkanir í húsnæðisverði eru bornar saman á milli landa, þróun síðustu mánaða hér á landi virðist vera í takti við það sem er að gerast í nágrannalöndum. Líkt og myndin hér að neðan sýnir nam árshækkun húsnæðisverðs á Íslandi um átta prósentum í sumar.
Til samanburðar hækkaði raunverð húsnæðis að meðaltali um 9 prósent í OECD-ríkjum á sama tímabili, en hækkunin nam 10 prósentum í Noregi og 13 prósentum á Íslandi.
Kristín Arna Björgvinsdóttir, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, gerði þróun fasteignaverðs að umfjöllunarefni sínu í vikuritinu Vísbendingu í byrjun mánaðarins. Samkvæmt henni hefur húsnæðisverð hækkað með svipuðum hætti hérlendis og í nágrannalöndum Íslands, en hækkunin er líklega afleiðing þess að seðlabankar ákváðu að lækka vexti í kjölfar heimsfaraldursins.