Svíþjóðardemókratar mælast stærstir allra flokka í Svíþjóð samkvæmt nýrri könnun YouGov, sem birt var í sænska blaðinu Metro í morgun. Þetta er í fyrsta skipti sem flokkurinn mælist svo stór.
Fjórðungur aðspurðra kjósenda sagðist myndu kjósa flokkinn. Jafnaðarmenn fengu stuðning 23,4 prósenta aðspurðra og Moderaterna, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þinginu, hlaut 21 prósenta stuðning.
Í Metro í dag segir Sören Holmberg prófessor í stjórnsýslufræðum við Gautaborgarháskóla að niðurstaðan komi ekki á óvart. Þessi þróun hafi átt sér stað um langt skeið. Ástæða fyrir aukningunni gæti til að mynda verið að 46 prósent kjósenda telji útlendingamál vera mikilvægasta pólitíska málið um þessar stundir, samkvæmt sömu könnun YouGov.
Könnunin hefur hins vegar einnig verið gagnrýnd. Stjórnmálaspekingurinn Stina Morian bendir á það að könnunin hafi verið framkvæmd við sérstakar aðstæður, í tengslum við nýleg morð sem framin voru í IKEA-verslun í Svíþjóð af hælisleitanda. Nú sé mikil umræða á netinu um þessi mál. Hún segist ekki hafa trú á því að þetta fylgi sé komið til að vera, en hins vegar gæti hún trúað því að Svíþjóðardemókratar yrðu næststærsti flokkur landsins í næstu kosningum, vegna þess að aðrir flokkar hafi ekki hlustað á áhyggjur kjósenda.
Í umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins SVT um könnunina er rætt við stjórnmálafræðinginn Andreas Johansson Heinö, sem varar við því að fólk taki niðurstöður könnunarinnar of alvarlega. YouGov noti ekki slembiúrtök heldur skrái fólk sig sjálft og því ekki hægt að heimfæra niðurstöðurnar á stærra þýði.
Niðurstöðurnar eru betri fyrir Svíþjóðardemókratana í þessari nýju YouGov könnun en í öðrum nýlegum könnunum. Hins vegar eru flestir stjórnmálaskýrendur sem rætt er við í sænskum fjölmiðlum sammála um að Svíþjóðardemókratar hafi aukið við sig fylgi og að það komi ekki á óvart. Í síðustu kosningum hlaut flokkurinn 12,9 prósent atkvæða, og tvöfaldaði þingmannafjölda sinn milli kosninga.