Ef þú ert að fara í ferðalag og ísskápurinn þinn er fullur af alls konar mat sem þú hefur bæði eytt tíma, peningum og óhjákvæmilega oft náttúrunnar gæðum í að koma þangað, skaltu opna hann núna og gera vörutalningu. Leynist ekki þarna eitthvað sem mætti taka með í nesti – eða best er að setja í frysti áður en lagt er í‘ann á vit ævintýranna?
Matarsóun er gríðarstórt vandamál víðast hvar í heiminum og við Íslendingar eigum okkar sök í því. Samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið á umfangi matarsóunar er hún svipuð hér og í öðrum löndum Evrópu. Og því ber ekki að fagna.
Í skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2021 segir að um 8-19 prósent af allri losun gróðurhúsalofttegunda á jörðinni af mannavöldum megi rekja til matar sem aldrei er neytt. Rannsóknir stofnunarinnar benda til að um 17 prósent allra matvæla sem eru framleidd fari til spillis. Það gerir um 120 kíló af matvælum á hvert mannsbarn á ári. Það er því til mikils að vinna, bæði fyrir umhverfið og budduna að draga úr matarsóun.
Umhverfisstofnun Íslands hefur nú gefið út nokkur góð ráð til að undirbúa brottförina og sporna gegn matarsóun:
- Vöndum innkaup síðustu dagana. Fyllum ekki ísskápinn af ferskvöru rétt áður en lagt er af stað í frí. Reynum að saxa á það sem til er og höldum innkaupum í lágmarki
- Gefum ferskvöru. Ef mikið er til af ferskvöru er um að gera að koma henni á góðan stað; til ættingja, vina eða nágranna sem munu geta nýtt sér matinn áður en hann skemmist
- Frystum. Kannski er eitthvað í eldhúsinu sem mun nýtast þegar heim er komið ef við frystum matinn? Niðurskornir ávextir geta til dæmis nýst í drykki úr blandaranum eða í spennandi sultur. Munum líka að mjólkurvörur frystast vel; mjólk, smjör, rjómi og ostur sem dæmi. Og auðvitað brauðið!
- Nýtum í nesti. Tökum með okkur mat úr ísskápnum í ferðalagið, hvort sem það er í nestistöskuna til neyslu samdægurs eða til lengri tíma í kæliboxið
Á pökkunarlistann
Ýmsar góðar venjur úr hversdagslífinu riðlast gjarnan þegar farið er í frí. Hér eru nokkrir hlutir sem gott er að pakka niður í töskuna áður en lagt er í hann:
- Fjölnota vatnsbrúsi
- Fjölnota kaffimál
- Fjölnota borðbúnaður
- Fjölnota poki fyrir búðaferðir
Um sextíu prósent allrar matarsóunar á sér stað inni á heimilunum. Fjörtíu prósent matarins fara til spillis á veitingastöðum, í verslunum, á mörkuðum og á framleiðslustað, s.s. bóndabýlum.
Þessi mikla sóun hefur ekki aðeins þau áhrif að flóð einnota umbúða eykst heldur setur sitt spor á allt lífríkið. Óræktað land með sínum einstöku vistkerfum eru brotið undir landbúnað fyrir mat sem enginn borðar.
„Ef við ætlum raunverulega að taka á loftslagsbreytingum, hnignun náttúrunnar og vistkerfa, mengun og sóun, verða fyrirtæki, stjórnvöld og borgarar þessa heims að gera sitt til að draga úr matarsóun,“ segir Inger Andersen, forstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu.