Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn lögum um fjölmiðla með auglýsingum um áfengi annars vegar og auglýsingum um happdrættis- og veðmálastarfsemi hins vegar, en um var að ræða auglýsingar í hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni á Vísi.
Tilkynning barst Fjölmiðlanefnd vegna málsins í nóvember á síðasta ári og var athygli nefndarinnar vakin á því að í hlaðvarpsþættinum væru að finna auglýsingar fyrir Viking Lite og Coolbet og tók nefndin málið til athugunar.
Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að viðskiptaboð fyrir vörutegundir Viking Lite, Viking Lite Jóla og Viking Lite Lime í hlaðvarpsþættinum á tímabilinu 30. september 2021 til og með 4. janúar 2022 hafi Sýn sem fjölmiðlaveita brotið gegn lögum um fjölmiðla.
Jafnframt var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að auglýsingar í hlaðvarpsþættinum á fatnaði merktum Coolbet væru til þess fallnar að auglýsa veðmálastarfsemina enda hafi umfjöllun um fatnaðinn oft farið fram í tengslum við umfjöllun um veðmál. Nefndin féllst ekki á sjónarmið Sýnar að einingus hafi um verið að ræða auglýsingu á „fatalínu“ Coolbet, og segir í rökstuðningi Fjölmiðlanefndar að þekkt sé að fyrirtæki og aðrir aðilar merki fatnað með vörumerki sínu og nafni í markaðslegum tilgangi. Komst nefndin því að þeirri niðurstöðu að Sýn hafi einnig brotið gegn lögum um fjölmiðla með viðskiptaboðum fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi.
Í tilkynningu frá Fjölmiðlanefnd vegna málsins segir að ekki sé talin ástæða til þess að falla frá sektarákvörðun í málinu, enda hafi Sýn áður brotið gegn lögum um fjölmiðla um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi einni milljón króna.