Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn hefur skilað tapi á sjö af síðustu átta ársfjórðungum. Eina skiptið sem það hefur skilað hagnaði frá byrjun apríl 2019 er á þriðja ársfjórðungi í fyrra, þegar hagnaðurinn var átta milljónir króna.
Síðasta uppgjör Sýnar var birt í gær, miðvikudag. Þar kom fram að Sýn tapaði 231 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs.
Sýn tapaði 405 milljónum króna á síðasta ári. Það er töluvert minna tap en félagið skilaði af sér árið 2019, þegar það tapaði 1.748 milljónum króna. Samanlagt tap samstæðunnar á tveimur árum er því tæplega 2,2 milljarðar króna og frá byrjun árs 2019 hefur félagið tapaði um 2,5 milljörðum króna.
Árið 2019 réð mestu að virðisrýrnun viðskiptavildar vegna fjölmiðla samstæðunnar var færð niður um tæplega 2,5 milljarða króna, en á móti kom líka einskiptissöluhagnaður vegna sölu á færeyska félaginu P/F Hey upp á 872 milljónir króna.
Allir tekjustraumar Sýnar drógust saman á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021 nema farsímatekjur félagsins, sem jukust um þrjú prósent. Heildartekjur voru 4.962 milljónir króna sem er 33 milljónum króna lægri tekjur en Sýn hafði á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.
Tap vegna sölu á færeysku félagi
Á síðasta degi fyrsta ársfjórðungs var skrifað undir samninga um að selja það sem kallaðir eru óvirkir farsímainnviðir Sýnar á 7,1 milljarð króna. Söluhagnaður Sýnar vegna þessa er yfir 6,5 milljarðar króna. Um er að ræða meðal annars sendaturnar í farsímakerfi félagsins. Sýn leigir svo innviðina til baka. Söluhagnaðurinn er ekki færður nema að hluta í gegnum rekstur á söludegi og eftirlitsstofnanir eiga enn eftir að samþykkja kaupin.
Heildarfjárfestingar Sýnar á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 námu 807 milljónum króna. Þar af voru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum 231 milljónir króna. Fjárfesting í sýningarréttum var 576 milljónir króna.
Í fjárfestakynningu Sýnar kemur fram að ákvörðun um að færa Stöð 2 alfarið í læsta dagskrá, sem fól í sér að fréttatíma stöðvarinnar var læst snemma á þessu ári, hafi haft jákvæð áhrif á áskriftartekjur. „Þær voru sambærilegar í janúar 2021 og desember 2020, sem alla jafna er tekjuhæsti mánuður ársins. Áskrifendum Stöðvar 2 fjölgaði um 12 prósent á milli 1F 2021 og 1F 2020.“
Ætla að ráðast í meiri sölu innviða
Heiðar Guðjónsson, einn stærsti einkafjárfestirinn í félaginu með 9,16 prósent eignarhlut, settist sjálfur í forstjórastól þess snemma árs 2019 og var formlega ráðinn í starfið í apríl á því ári. Hann hefur því stýrt Sýn í tvö ár og skilað taprekstri í sjö af þeim átta ársfjórðungum sem hann hefur gegnt starfinu.
Í fréttatilkynningu vegna uppgjörs fyrsta ársfjórðungar er haft eftir Heiðari að árið 2020 hafi verið ár viðsnúnings í rekstri og að yfirstandandi ár sé ár viðsnúningur í efnahag Sýnar. „Við stefnum á meiri sölu innviða á árinu en nú þegar er ljóst að skuldirnar sem við tókum á okkur við kaup á eignum 365 verða greiddar upp á þessu ári auk þess sem mikið svigrúm myndast til endurkaupa hlutabréfa.“
Hann segir uppgjör fyrsta ársfjórðungs litast af árstíðarsveiflu sem jafnan sé í rekstrinum. „Við sjáum að Fjölskyldupakkinn sem við hleyptum af stokkunum í lok tímabilsins selst framar vonum en hefur ekki áhrif á uppgjörið. Viðsnúningur í rekstri er því í fullum gangi. Á móti kemur að sölutap er innleyst af eign í Færeyjum uppá tæpar 200 milljónir.“
Stærstu eigendur Sýnar eru Gildi lífeyrissjóður með 12,73 prósent hlut, Lífeyrissjóður vezlunarmanna með 10,73 prósent hlut og Kvika banki sem er skráður fyrir 9,85 prósent hlut, en þar er að öllum líkindum um framvirka samninga að ræða og raunverulegir eigendur þeirra aðrir. Lífeyrissjóðir eiga að minnsta kosti um helming hlutafjár Sýnar samanlagt.