Stjórnarflokkurinn í Grikklandi, Syriza, verður áfram stærsti flokkur landsins eftir kosningar samkvæmt skoðanakönnun sem birtist í morgun. Skoðanakönnunin birtist í gríska blaðinu Efimerida Ton Syntakton, og er fyrsta stóra könnunin eftir að Alexis Tsipras sagði af sér sem forsætisráðherra í síðustu viku og boðaði til kosninga.
Syriza mældist með 23% stuðning, og íhaldsflokkurinn Nýtt lýðræði með 19,5%. Í síðustu stóru könnun sem gerð var af sama fyrirtæki, ProRata, mældist Syriza með 26% stuðning en Nýtt lýðræði 15%. Það hefur því dregið saman með flokkunum eftir að Tsipras ákvað að boða til nýrra kosninga til að freista þess að endurnýja umboð sitt sem forsætisráðherra. 25,5% aðspurðra eru enn óákveðnir.
Hluti þingmanna Syriza hefur klofið sig út úr flokknum og stofnað nýjan flokk. Sá flokkur fær aðeins 3,5% fylgi samkvæmt skoðanakönnuninni, en 3% er lágmarkið til þess að ná manni inn á þing. Sjálfstæðir Grikkir, sem voru í samsteypustjórn með Syriza, fær aðeins 2%.
Meirihluti aðspurðra í könnuninni telur að það hafi verið rangt hjá Tsipras að boða til nýrra kosninga og endurnýja þannig umboð sitt. 64% voru þeirrar skoðunar. 68% voru sammála um að Grikkir verði að vera áfram hluti af evrusvæðinu, jafnvell þótt það þýði auknar aðhaldsaðgerðir og niðurskurð. Efimerida Ton Syntakton segir að svörin við þessum tveimur spurningum sýni fram á að sú ákvörðun Tsipras að boða til kosninga gæti á endanum skaðað hann og flokkinn hans. Einn af hverjum þremur sem studdu Tsipras og Syriza í kosningunum í janúar er ekki viss um að flokkurinn myndi fá stuðning aftur.