Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur veitt einkahlutafélaginu 101 Austurstræti formlega viðvörun vegna reksturs skemmtistaðarins Austurs, vegna leyfislausrar starfsemi. Þetta kemur fram í bréfi sem sýslumaður hefur sent forsvarsmönnum einkahlutafélagsins, og Kjarninn hefur undir höndum. Fréttavefurinn Vísir greindi fyrst frá málinu, en hægt er að lesa bréf sýslumanns hér.
Eigandi kærði skemmtistaðinn sinn
Viðvörun sýslumanns má rekja til tilkynningar Kamran Keivanlou, sem á helmingshlut í 101 Austurstræti ehf. í gegnum félagið Alfacom Trading, til embættisins þann 16. febrúar síðastliðinn. Þar var fullyrt að sala áfengra veitinga á skemmtistaðnum væri nú í höndum annars félags, Austurstrætis 5 ehf. Fullyrðingarnar voru meðal annars studdar með posakvittunum úr greiðslukerfi staðarins þar sem nafn Austurstrætis 5 kemur fram sem færsluhirðir.
Sýslumaður segir sölu áfengra veitinga háða útgefnu rekstrarleyfi staðarins, sem er skráð á 101 Austurstræti ehf., og Austurstræti 5 ehf. hafi ekki fengið útgefið leyfi fyrir umræddri starfsemi. Í bréfi sýslumanns er skorað á 101 Austurstræti að bæta úr þessum annmörkum á rekstrinum svo ekki þurfi að koma til aðgerða lögreglu samkvæmt lögum, þar sem stöðva skal leyfisskylda starfsemi sem fram fer án tilskilins leyfis.
Kærur og ásakanir ganga á milli eigenda Austur
Athafna- og fjölmiðlamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson og félag í eigu Styrmis Þórs Gunnarssonar, fyrrverandi forstjóra MP banka, sem eiga helmingshlut í 101 Austurstræti ehf. á móti Alfacom, hafa stefnt félaginu fyrir vanefndir á kaupsamningi. Samkvæmt kaupsamningnum hugðist Alfacom kaupa allt hlutafé í 101 Austurstræti, og greiddi helming kaupverðsins við undirritun.
Alfacom hefur lagt fram gagnstefnu í málinu, og krefst riftunar á kaupsamningnum vegna vanefnda seljenda, auk þess að lögregla stöðvi ólöglegan rekstur skemmtistaðarins. Eins og Kjarninn greindi frá á dögunum hefur Kamran Keivanlou kært Ásgeir Kolbeinsson og fleiri til lögreglu og sérstaks saksóknara vegna meints fjárdráttar. Þá hefur Ásgeir sömuleiðis kært Kamran til lögreglu fyrir hótanir. Kæra Ásgeirs byggir á hljóðupptöku af meintu samtali hans og Kamran.