Tækniþróun er það ofurafl sem flest vaxtarfyrirtæki sem skráðu sig á First North- hlutabréfamarkaðinn í fyrra gera út á, en auk þess eru fyrirtæki í líftækni, heilbrigðisvísindum og umhverfismálum áberandi. Þetta segir Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland, í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Ár útboða
Í greininni fer Baldur yfir frumútboð fyrirtækja sem skráðu sig á First North vaxtarmarkaðinn í kauphöllum Norðurlandanna í fyrra. Samkvæmt honum voru þau alls 136, en til viðbótar skráði 31 þeirra sig á markað án útboða. Hann segir að metár hafi verið í frumútboðum á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum, þar sem áhugi fjárfesta var mikill og aðstæður til útboða þóttu almennt góðar.
Baldur flokkar fyrirtækin sem fóru í frumútboð eftir svokölluðum ofuröflum (e. megatrends), en það eru straumar og stefnur sem móta og gjörbylta samfélaginu okkar. Ofuröflin sem hann tilgreinir eru fimm talsins: Færsla á efnahagslegu valdi, þéttbýlismyndun, loftslagsbreytingar, breytingar í lýðfræði og tækniþróun.
Langflest fyrirtækjanna, eða 81 prósent þeirra, gerðu út á tækniþróun með einum eða öðrum hætti. Í öðru sæti er svo lýðfræði og samfélagslegar breytingar, en 22 prósent fyrritækjanna virðast leggja áherslu á þann lið. Í þessum flokki eru fyrirtæki sem startfa á sviði heilsutækni, auk annarra sem sinna þjónustu við aldraða.
Í þriðja sætið eru umhverfismál, en sá málaflokkur er hluti af kjarnastarfsemi fimmtungs fyrirtækjanna sem fóru í frumútboð í fyrra. Minna er um fyrirtæki sem gera út á þéttingu byggðar og færslu á efnhagslegu valdi, en samanlagt leggja um átta prósent fyrirtækjanna áherslu á þá liði.
„Þegar ég horfi til framtíðar í gegnum óvísindalegu norrænu frumútboðsgleraugun mín sé ég að tæknin er allsráðandi,“ segir Baldur í greininni sinni. „Þetta kemur auðvitað ekki á óvart. Fyrirtæki í líftækni og öðrum heilbrigðisvísindum eru orðin meira áberandi í hópi stærstu og öflugustu fyrirtækja Norðurlandanna og umhverfismálin eru orðin risavaxinn iðnaður.“
Hann bætir við að tíminn muni leiða í ljós hvort þessar áherslur markaðarins hafi verið réttar, en mögulega séu þarna einhver tækifæri sem markaðurinn sé að missa af. Slíkt verði hins vegar einungis útkljáð á meðal frumkvöðla og fjárfesta.