Brýnt er að taka allan vafa af um hvort auðlindir í náttúru Íslands séu í eigu þjóðarinnar, að ekki sé heimilt að úthluta þeim til varanlegra afnota og að úthlutun geti aldrei leitt til einkaréttarlegrar eignar eða óafturkallanlegs forræðis að mati Alþýðusambands Íslands. Þetta kemur fram í umsögn sambandsins um frumvarp um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins.
Í umsögninni er sagt að gera þurfi breytingar til þess að taka af allan vafa um að nýtingarréttur sé tímabundinn. Sambandið telur auk þess að stjórnvöldum „beri að innheimta gjald af nýtingu sem tryggi að renta af nýtingu auðlinda renni til þjóðarinnar.“
Fjalla um tvær nýjar greinar í umsögn
Umsögn sambandsins snýr að 22. grein frumvarpsins en hún fjallar um þrjár nýjar greinar sem lagt er til að rati inn í stjórnarskrána. Í umsögn ASÍ kemur fram, líkt og í fyrri umsögnum sambandsins um stjórnarskrárbreytingar, að sambandið styðji það sjónarmið að nauðsynlegt sé að þjóðin setji sér „nýja, skýra og nútímalega stjórnarskrá í opnu og lýðræðislegu ferli.“ Frumvarpið sem um ræðir lítur hins vegar að afmörkuðum breytingum.
Í umsögninni er fjallað um a) og b) lið 22. greinar frumvarpsins en báðir liðirnir fjalla um nýjar stjórnarskrárgreinar sem fjalla um náttúru Íslands og auðlindir hennar en sambandið fagnar því að greinar þess efnis rati í stjórnarskrána. „ASÍ telur að innleiðing umhverfis- og auðlindaákvæða í stjórnarskrá Íslands styðji við þá stefnu ASÍ að atvinnuuppbygging fari fram á forsendum sjálfbærrar þróunar og að almannahagur sé hafður að leiðarljósi við nýtingu náttúrugæða. Liður í því að leggja almannahag til grundvallar sjálfbærrar uppbyggingar vinnumarkaðar sé að tryggja jafnræði og gagnsæi við úthlutun nýtingarheimilda náttúrugæða.“
Því sé það jákvætt að sérstaklega kveðið á um þessi atriði í frumvarpinu að mati ASÍ.
„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu“
Í a) lið 22. greinar frumvarpsins segir að náttúra Íslands sé undirstaða lífs í landinu og að ábyrgð á vernd hennar hvíli sameiginlega á öllum. Verndin skuli grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þar segir einnig að allir eigi rétt til heilnæms umhverfis auk þess sem kveðið er á um að almenningi sé heimil för um landið.
Það er mat ASÍ að ákvæðið sé „framsækið og að í því felist mikilvægar góðar viðbætur og umbætur á núverandi stjórnarskrá.“ Tekið er fram í umsögninni að þetta mat sé fengið eftir yfirferð og samanburð á greininni við tillögur stjórnlagaráðs og yfirferð greinargerðar sem fylgir frumvarpinu. Að mati sambandsins inniheldur greinin mjög sambærilegt ákvæði og finna má í tillögum stjórnlagaráðs og nær yfir öll þau atriði sem voru í tillögum ráðsins um sama efni.
Breytingar á kjörtímabili forseta óþarfar
Líkt og áður kom fram segir ASÍ það ekki vera hafið yfir vafa hvort auðlindir náttúru Íslands séu í eigu þjóðarinnar, hvort heimilt sé að úthluta þeim til varanlegra afnota og hvort að úthlutun geti leitt til einkaréttarlegrar eignar eða óafturkallanlegs forræðis. Því gerir sambandið athugasemd við b) lið 22 greinar frumvarpsins sem felur í sér að bætt verði inn í stjórnarskrá 80. grein sem fjallar um auðlindir náttúru Íslands. Greininni þurfi að breyta til þess að taka af allan vafa um nýtingarrétt.
Alþýðusambandið tekur ekki efnislega afstöðu til annarra ákvæða frumvarpsins í umsögn sinni en vísar til fyrri umsagna um frumvörp sem byggð eru á tillögum stjórnlagaráðs. Þó er vikið að kjörtímabili og embættistíma forseta lýðveldisins í niðurlagi umsagnarinnar. Að mati sambandsins er engin knýjandi ástæða til þess að lengja kjörtímabilið og takmarka embættistíma forseta líkt og lagt er til í frumvarpinu. Í umsögninni er fjögurra ára kjörtímabil sagt hæfilegt og í samræmi við embættistíma annarra þátta ríkisvaldsins og reynst vel án takmörkunar á endurkjöri allt frá stofnun lýðveldis.