Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í París, vegna árásinnar á ritstjórn Charlie Hebdo. Francois Hollande, forseti Frakklands, er á vettvangi og hefur þegar sagt að árásin sé sérstaklega ógeðfelld og að allt verði gert til að ná þeim sem stóðu á bak við hana. Mennirnir sem skutu fólkið til bana ganga lausir í París.
Byssumenn réðust í morgun á ritstjórn skopmyndaritsins Charlie Hebdo í París og myrtu í það minnsta tólf manns og særðu tíu, að því er fram kemur í frásögn breska ríkisútvarpsins BBC. Tala látinna hefur farið hækkandi, í frásögnum fjölmiðla, þar sem upplýsingar um afleiðingar árásarinnar berast stöðugt. Samkvæmt lýsingum vitna, sem BBC vitnar til, komu tveir menn vopnaðir Kalishnikov rifflum á skriftstofur ritsins og hófu skothríð með fyrrnefndum afleiðingum. Hluta af árásinni má sjá í myndbandi sem francetv hefur birt, sem tekið er ofan af húsþaki í grennd við skrifstofur Charlie Hebdo.
Síðasta tíst ritsins á Twitter var með mynd af leiðtoga Íslamska ríkisins, Abu Bakr al-Baghdadi. Ekki hefur enn verið staðfest hver ber ábyrgð á árásinni.
Skrifstofur Charlie Hebdo hafa áður verið skotmark hryðjuverkumanna, en sprengja sprakk við skrifstofurnar í nóvember 2011. Fréttin verður uppfærð eftir því sem nýjar upplýsingar berast.
Lögreglan í París hefur lokað öllum götum í námunda við skrifstofur Charly Hebdo.
Uppfærsla 12:55, um tveimur tímum eftir að fyrstu fréttir fjölmiðla birtust af árásinni: Tveir lögreglumenn voru skotnir til bana, og 10 starfsmenn Charlie Hebdo.
Meilleurs vœux, au fait. pic.twitter.com/a2JOhqJZJM
— Charlie Hebdo (@Charlie_Hebdo_) January 7, 2015