Yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis ákvað á fundi sínum í dag að verða við beiðnum um að öll atkvæði í Suðurkjördæmi verði talin að nýju. Þetta kemur fram í tilkynningu frá formanni yfirkjörstjórnar í kjördæminu, Þóri Haraldssyni.
Talningin fer fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í kvöld og hefst kl. 19.
Umboðsmenn allra framboðslista verða boðaðir til fundar með yfirkjörstjórn á sama stað kl. 18:30. Talningin mun fara fram fyrir opnum tjöldum, í samræmi við lög.
Í gær sagði formaður yfirkjörstjórnarinnar í kjördæminu fjölmiðlum frá því að farið hefði verið yfir um 10 prósent atkvæða í kjördæminu og engin villa komið í ljós við þá yfirferð. Því hefði verið afráðið að ekki væri þörf á að telja öll atkvæðin aftur.
Hann sagði við Kjarnann í dag að sá háttur hefði verið hafður á við talningu í kjördæminu á kosninganótt að hverju einasta atkvæði hefði verið raðað og það talið að minnsta kosti fjórum sinnum, af minnsta kosti tveimur talningarmönnum.
Skekkja í Norðvesturkjördæmi breytti stöðunni
Ákveðin óvissa ríkir enn um niðurröðun jöfnunarþingmanna fimm flokka, eftir að skekkja kom fram í talningu í Norðvesturkjördæmi í gær sem setti hringekju jöfnunarmanna af stað á milli kjördæma.
Um miðjan dag í gær sögðu fjölmiðlar frá því að öll atkvæði í Norðvesturkjördæmi yrðu talin aftur vegna þess hversu lítill munur var á jöfnunarþingmönnum á milli kjördæma.
Ingi Tryggvason, yfirmaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, sagði þá að kjörstjórn hefði ákveðið að telja atkvæðin aftur vegna lítils munar. Enginn flokkur hefði farið fram á endurtalningu.
Eftir endurtalninguna færðust jöfnunarsæti flokka á milli kjördæma og þannig viku fimm einstaklingar sem töldu sig vera inni á þingi í gærmorgun fyrir öðrum fimm seinni partinn.
Þegar þessi staða var orðin ljós varð svo ljóst að lítil hreyfing á fjölda atkvæða í Suðurkjördæmi gæti haft áhrif á það hvort niðurstaðan myndi breytast að nýju, en aðeins munar sjö atkvæðum á því hvort jöfnunarþingsæti falli til Vinstri grænna eða Miðflokksins.
Fjórar stjórnmálahreyfingar óskuðu eftir því að atkvæði yrðu talin að nýju og yfirkjörstjórnin í kjördæminu hefur sem áður segir ákveðið að verða við því.